36
LAND-NÁM á Suðurnesjum Athugun á framkvæmd og möguleikum uppgræðsluverkefnisins LAND-NÁMs á Suðurnesjum sumarið 2003

Land-Námmennta.hi.is/starfsfolk/kristjan/publications/landnam.doc · Web viewStutt kynning 2 LAND-NÁMs verkefnin 2 LAND-NÁM á Suðurnesjum 2 Verklag og fyrstu kynni. 3 Áhöld:

  • Upload
    others

  • View
    1

  • Download
    0

Embed Size (px)

Citation preview

Land-Nám

Nýsköpunarsjóður Námsmanna

9.11.2006

LAND-NÁM á Suðurnesjum

Athugun á framkvæmd og möguleikum uppgræðsluverkefnisins LAND-NÁMs á Suðurnesjum sumarið 2003

Nýsköpunarsjóður Námsmanna

námsmaður: Kristján Ketill Stefánsson

umsjónarmaður: Björn Guðbrandur Jónsson

Efnisyfirlit

2Stutt kynning

2LAND-NÁMs verkefnin

2LAND-NÁM á Suðurnesjum

3Verklag og fyrstu kynni.

3Áhöld:

4Plöntustæði

4Gerð klasa

5Staðsetning

5Útplöntun

5Tegundir

6Mælingar og skráning

6Nákvæmni

6Söfnun upplýsinga

7Vinnubrögð nemenda úr framhaldsskólanum

7Undirbúningur LAND-NÁMs á Suðurnesjum

7Verkefni kynnt

7Svæði

8Námskeið fyrir flokkstjóra

8Gerð vefinnsláttarviðmóts

8Hýsing og forrit

9Unnið með áreiðanleika

10Vefurinn og upphafssíðan

10Skráningarskýrslan

11Mælingasíðan

11Gagnagrunnur

12Leit í gagnagrunni

12Dæmi um hagnýtingu upplýsinga

12Áreiðanleiki

13Veðrið

13Vöxtur

14Mismunur milli áburðartegunda

16LAND-NÁM á Suðurnesjum

16Val í hópa

17Aldur og kyn

17Flokkstjórar

18Skólar

18Fræðsluferð

19Könnun á áhuga nemendanna

19ROSE spurningalistinn

20Spurningarnar

20Niðurstöður

22Samantekt

23Lokaorð

24Innihald geisladisks

25Heimildaskrá

Stutt kynning

LAND-NÁMs verkefnin

LAND-NÁM er samheiti á verkefnum sem samtökin Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs (GFF) vinna með sveitarfélögum og menntastofnunum. Sammerkt þessum verkefnum er að þar liggja þrjú hugtök til grundvallar; uppgræðsla, menntun og þekking. LAND-NÁMs verkefnum er ætlað að samþætta þessi þrjú hugtök með því að gera ungmenni að beinum þátttakendum við öflun gagna um vöxt og viðgang þess gróðurs sem þau vinna með í uppgræðslu. Verkefnin snúast því ekki einungis um að græða upp heldur einnig og ekki síður um að veita nemendum leiðsögn vísindaleg vinnubrögð. Nemendum er gert að mæla og skrá ýmsa þætti og fylgja þeim eftir á rafrænt form þar sem þeir verða hluti af stærri gagnagrunni sem nemendur geta svo unnið með. Þannig tvinnast saman útivinna í mörkinni og rafræn gagnavinnsla.

Gagnagrunninum er hugað margþætt gildi. Hann er m.a hugsaður sem kennslutæki fyrir nemendur á ýmsum skólastigum. Gagnagrunnurinn getur nýst til að gefa innsýn í beitingu tölfræði á raunveruleg og stór gagnasöfn, óháð því hvers kyns upplýsingar hann geymir. Gagnagrunnurinn getur einnig komið að notum við kennslu í líffræði, einmitt vegna þess hverrar gerðar upplýsingarnar eru. Loks má nefna að gagnagrunnurinn er hugsaður af hendi GFF sem uppspretta haldbærrar þekkingar um vöxt og framvindu gróðurs, einkum trjáplantna, við mismunandi skilyrði í Landnámi Ingólfs.

LAND-NÁM á Suðurnesjum

LAND-NÁM á Suðurnesjum er samstarfsverkefni vinnuskóla sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum, Suðurlandsskóga og samtakanna Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs (GFF). Samstarf þetta snýst um virka þátttöku nemenda vinnuskólanna í uppgræðslustarfi undir leiðsögn GFF. Jafnhliða því að starfa að uppgræðslu afla nemendur gagna um vöxt plantna og framvindu af verkum sínum og koma þeim gögnum fyrir á tölvutækum gagnagrunni. GFF hefur á undanförnum árum þróað hugmyndafræði og aðferðir við uppgræðslu í samvinnu við skóla, vinnuskóla félagssamtök o.fl. Hugmyndir samtakanna taka mið af menntunarlegu gildi uppgræðslu og hugmyndum um sjálfbæra þróun þar sem hringrás og nýting lífrænna úrgangsefna spilar stórt hlutverk.

Samþætting hinna þriggja þátta sem áður voru nefndir; uppgræðslu, menntunar og þekkingar er að mörgu leyti vandasöm. Áhersla á einn þátt getur komið niður á öðrum. Hlutverk skýrsluhöfundar var að freista þess að leggja mat, annars vegar á upplifun nemenda af verkefninu, með tilliti til menntunargildis þess og hins vegar á gildi og áreiðanleika þeirra gagna sem nemendurnir öfluðu og skiluðu inn á rafrænt form. Framvinda verkefnisins leiddi svo til að hlutverk skýrsluhöfundar varð ekki síst að hanna kerfi sem auðveldar færslu gagna á rafrænt form. Jafnframt því var þess freistað að gera viðmót sjálfs gagnagrunnsins eins notendavænt og kostur er þannig að upplýsingarnar sem hann geymir nýtist á sem fjölbreyttastan hátt.

Verklag og fyrstu kynni.

Fyrstu kynni af verklagi GFF voru í Krýsuvík þann 16. maí 2003. Þar var þeim aðferðum beitt við uppgræðslu sem nota átti síðar um sumarið. Þennan tiltekna dag tók GFF á móti nemendum Flensborgarskólans í Hafnarfirði en það er hluti af viðameira samstarfi þessara aðila. Rúta ók á milli skólans og Krýsuvíkur á 2 tíma fresti. Fjórir hópar, 15 - 30 manns að stærð komu til Krýsuvíkur. Hverjum hóp var skipt í fernt og mynduðu krakkarnir þannig 4 manna teymi sem unnu að uppgræðslunni saman. Krakkarnir voru flest að ljúka fyrsta ári framhaldsskólans eða á 17. ári. Hverjum hóp var úthlutað áhöldum til uppgræðslunnar en þau voru:

Áhöld:

1 miðjustaur

4 fjögurra metra spottar

4 útstaurar

áburðarefni

eyðublað (fylgir á geisladiski skýrslunnar)

filmubox

fötur

GPS staðsetningartæki

harðspjald

hjólbörur

málband/tommustokkur

penni/blýantur

plöntuskóflur

skífumál

skófla

stunguskóflur/plöntubor

Plöntustæði

Grunnhugmyndin að baki LAND-NÁMi er að fylgjast með framvindu í vexti trjáplantnanna. Rannsóknaþættir snerta þá m.a. áhrif mismundandi áburðar á þessa framvindu. Snemma í þróun og skipulagningu LAND-NÁMs var ákveðið að skipa gögnum þannig að gagnagrunnurinn yrði einstaklingsgreinanlegur. M.ö.o. hægt yrði að ganga að hverri plöntu með fullvissu og mæla og skrá sömu stærðirnar ár eftir ár. Staðsetning plantnanna þarf því að ákvarðast með einföldum en öruggum hætti.

Einfaldasta leiðin til þess er augljóslega að hanna einhvers konar hnitakerfi. Það leiðir hins vegar af sér að plantað er í beinar línur og rétt horn sem síðan verða sýnileg úr fjarlægð. Slík augljós manngerð form úti í náttúrunni vill GFF forðast. Grundvöllur í staðsetningarkerfi LAND-NÁMs er hugtakið klasi. Einn klasi samanstendur af 25 trjáplöntum sem plantað er í hringlaga svæði sem er 50 m2 að flatarmáli. Plönturnar eru settar niður samkvæmt ákveðinni aðferð sem snýst um að halda til haga innbyrðis staðsetningum.

Á þeim 2 tímum sem nemendum Flensborgarskólans var skammtað í Krýsuvík var þeim ætlað að koma út einum klasa. Staðsetning klasans var miðuð við að nýta svæðið innan girðingarinnar á sem hagkvæmastan hátt. Þegar teknar voru holur fyrir trjáplönturnar var þess gætt að rjúfa ekki gróðurþekju innan hringsins. Lögð var áhersla á að verið væri að klæða landið gróðri.

Gerð klasa

Plöntur með miklum blaðvexti

5

7

9

11

13

15

17

19

21

23

Molta

Molta+uppgr 50/50

Svínaþurrefni+tilb áb

Molta+uppg+tilb áb

Svínaþurrefni+uppgr

50/50, grasfræ +

tilbúinn áburður

Molta, grasfræ +

tilbúinn áburður

Svínaþurrefni,

grasfræ + tilbúinn

áburður

Svínaþurrefni+uppgr

50/50

Tilbúinn áburður +

uppgröftur, grasfræ

+ tilbúinn áburður

Molta+uppgr 50/50,

grasfræ + tilbúinn

áburður

Plöntur með miklum

blaðvexti

Til að búa til klasann þurftu nemendurnir að stinga niður miðjustaurnum og strengja út frá honum 4 metra langa spotta í höfuðáttirnar fjórar. Og mynduðu því kross í landið. Þessi kross skipti klasanum í fernt. Krakkarnir voru svo látnir ímynda sér að krossinn stæði inni í hring og skipti þeim hring í fjóra jafnstóra fjórðunga. Hver fjórðungur bar nafn af áttunum NV-, NA-, SA- og SV-fjórðungur.

Staðsetning

Plöntur með enga athugasemd

0

1

2

3

4

5

6

7

Molta+uppgr 50/50,

grasfræ með tilbúnum

áburði

Molta+uppg+tilb áb

Svínaþurrefni+tilb áb

Tilb áb+uppgröftur,

grasfræ með tilbúnum

áburði

Molta, grasfræ með

tilbúnum áburði

Svínaþurrefni, grasfræ

með tilbúnum áburði

Svínaþurrefni+uppgr+til

b áb

Plöntur með enga athugasemd

Innan hvers fjórðungs voru svo afmörkuð 6 sæti. Sæti 1 vinstra megin fjærst miðju og sæti 6 næst miðju í hverjum fjórðungi. Sætin röðuðust svo í tölulegri röð í lestrarátt (frá vinstri til hægri) í þremur línum frá sæti 1 til 6. Hver fjórðungur hafði 6 sæti en einnig var 1 planta sett í svokallað 0 sæti en það var í miðjunni. Hver klasi hafði því 25 sæti sem unnt var að greina út frá miðjustaurnum. Hnattstaða miðjustaursins var ákvörðuð með GPS staðsetningartæki og einnig svæðisraðnúmeri sem ritað var á staurinn. Fyrsti klasinn var númer eitt og sagði því raðnúmerið einnig til um fjölda klasa sem búið var að planta.

Útplöntun

Eftir fyrirlestur um verklag og tilgang verkefninsins ákvað umsjónarmaðurinn hvaða aðferðir og áburðarefni hver hópur skyldi nota við útplöntunina og hóparnir merktu við á eyðublöðin sín. Rannsóknaþátturinn í verkefninu snýst ekki síst um að sjá áhrif mismunandi áburðar á trjáplöntur til lengri og skemmri tíma. Holurnar voru ýmist teknar með plöntubor (staurabor) eða spaðaskóflu og áttu að vera um 20-25 cm í þvermál og 25-30 cm á dýpt. Efti að hola hafði verið grafin var moltu keyrt að klasanum í hjólbörum og holan fyllt. Plöntunni var síðan komið fyrir með plöntuskóflu í moltunni og þjappað varlega þannig að plantan væri stöðug. Lögð var áhersla á að ekki myndaðist skál í kringum plöntuna sem gæti leitt til frostlyftingar síðar meir. Einnig var áhersla lögð á að hylja rótina þannig að varna mætti að sólargeislar næðu skína ofan í rótina og þurrka hana upp og valda þar með rótardauða.

Tegundir

Unnið var með þrjár innlendar plöntutegundir birki, víði og reyni. Unnið var út frá því að hafa 5 birkiplöntur og 1 víðiplöntu í hverjum fjórðungi. Nemendurnir fengu að ráða í hvaða sæti víðiplantan lenti í hverjum fjórðungi. Þetta var gert til að forðast ónáttúruleg kerfi við plöntunina. Þrátt fyrir þetta var reyniplanta alltaf látin í miðjan klasann. Ástæður þess voru m.a. að þannig mátti velja hagstæði í miðju klasans fyrir reyniplöntuna, t.a.m. í skjólstæði fyrir erfiðustu vindáttinni, því fyrirfram er búist við að reynirinn eigi erfiðast uppdráttar af tegundunum þremur.

Mælingar og skráning

Eftir plöntun var hæð og þvermál hverrar plöntu mælt og skráð. Hæðin var mæld frá yfirborði að toppi og var notast við tommustokk eða málband. Hæðin var skráð í sentimetrum með einum aukastaf . Þvermál stofnsins var mælt við rót þar voru notuð skífumál sem mældu 1/10 úr millimetra þvermálið var skráð í millimetrum með einum aukastaf. Á eyðublaðið var hæð, þvermál og tegund allra sæta í klasanum skráð. Einnig var fyllt út hverjir gerðu klasann, hvað hópurinn kallaði sig, dagsetning plöntunarinnar, áburðarefnið sem notað var í klasann, hvort holurnar voru gerðar með stunguskóflu eða bor og GPS hnit.

Nákvæmni

Nemendunum var gert ljóst að vönduð vinnubrögð réðu úrslitum um lífslíkur plantnanna. Við verkin var lögð áhersla á að nemendurnir gerðu mismun á hvenær nákvæmni átti við og hvenær ekki. Almennt var áhersla lögð á mikla nákvæmni s.s. við mælingar, áburðargjöf og skráningu. Dregið var úr þeirri áherslu þegar taka átti holur fyrir plöntunum. Þetta var gert til að forðast ónáttúruleg kerfi við plöntunina og til að hægt væri að nýta sér þær aðstæður sem voru fyrir í hverjum fjórðungi. Til dæmis var stundum óvenju gott skjól mjög utarlega á því svæði sem hægt var að fella undir sæti 1. Þá var plantan sett þar en staðsetningum hinna sætanna í fjórðungnum hliðrað þannig að unnt væri að lesa út staðsetningu plantnanna á einfaldan hátt fyrir hið þjálfaða auga.

Söfnun upplýsinga

Að plöntun lokinni fóru hóparnir í mötuneyti Krýsuvíkursamtakanna og skráðu eyðublaðið sitt í excel skjal á fartölvu í eigu GFF. Skjalið fylgir með á geisladiski skýrslunnar. Innslátturinn reyndist krökkunum erfiður, excel skjalið sem slá átti upplýsingarnar í var því sem næst óunnið og erfitt að sjá með hvaða hætti nýta ætti upplýsingarnar þegar þær væru vistaðar í skjalinu. Erfiðlega gekk að færa bendilinn á milli innsláttarreita og tölvan gerði engar athugasemdir þótt að reit væri sleppt eða þótt að augljóslega vitlaust gildi væri slegið í reitinn t.d. 50 millimetra breið planta. Þar sem að einungis einn þurfti til að slá inn í tölvuna og þrír sátu aðgerðarlausir bar stundum á fljótfærni hjá þeim sem sá um innsláttinn.

Að því loknu fengu nemendurnir sér vöfflur í boði heimamanna. Það virkaði sem ágætis hvatning og hrós fyrir vel unnið starf .

Vinnubrögð nemenda úr framhaldsskólanum

Þeir nemendur sem voru á staðnum þessa dagstund í Krýsuvík tóku þátt í verkefninu sem hluta úr áfanga í skólanum. Þeir voru því ekki þarna í sjálfboðavinnu af einskærum áhuga. Samt sem áður unnu flestir verk sín vel. Hver hópur var látin ráða því hvernig þeir röðuðu þeim verkum sem gera þurfti og hvort um skýra verkaskiptingu var að ræða eða samvinnu af einhverjum toga. Flestum reyndist erfitt að læra á skífumálið og því var venjulega einungis einn sem lærði á það og sá um mælingarnar. Oftar en ekki var einnig einn sem sá um skráningu á eyðublaðið. Sumir grófu allar holurnar fyrst og gróðursettu svo. Aðrir grófu og gróðursettu jafnóðum. Tveir tímar reyndust ekki nægilegur tími til að koma á skipulegri verkröðun eins og siður varð hjá Suðurnesjahópunum um sumarið. Vinnubrögð nemendanna voru almennt góð, þó voru sýnilegir flöskuhálsar í skilningi nemendanna á tilgangi verkefninsins og þeim útskýringum sem fóru fram í byrjun. Þurfti því ítrekað t.d. að leiðbeina krökkunum með val á plöntustæði og hvernig lesa ætti af skífumáli. Jafnframt var óásættanlegt magn af villum við innsláttinn í excel skjalið.

Undirbúningur LAND-NÁMs á SuðurnesjumVerkefni kynnt

Verkefnið var kynnt opinberlega á degi umhverfisins þann 25.apríl 2003 í golfskálanum í Leiru, Gerðahreppi þegar undirritaðir voru samningar samtakanna Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs (GFF) við hvert og eitt hinna fimm sveitarfélaga á Suðurnesjum, Gerðahrepp, Grindavík, Reykjanesbæ, Sandgerði og Vatnsleysustrandarhrepp. Í maí voru ráðnir flokkstjórar til að stýra hverjum hinna fimm vinnuflokka sem þátt taka í verkefninu. Einnig voru uppgræðslu- og trjáræktarsvæði valin í samráði við forráðamenn hvers sveitarfélags.

Svæði

Eftirfarandi svæði voru valin:

· Gerðahreppur: Aflögð malarnáma í landi Langholts, sunnan þéttbýlisins í Garði.

· Grindavík: Hvammur í jaðri Skipstígshrauns, norðvestan í Lágafelli sem liggur suðvestan við Þorbjörn, vestan hins nýja vegar frá Grindavík í Bláa Lónið. Þarna er skáli sem ætlaður er göngufólki á leið um Reykjanesfólkvang.

· Reykjanesbær: Svæði í s.k. Sólbrekkum, skammt norðan við Seltjörn, ekki langt frá gamla herspítalanum.

· Sandgerði: Svæði í námunda við nýlegt sumarbústaðahverfi hjá Þóroddsstöðum, norðan við bæinn. Auk þess á skipulögðu svæði í “grænum trefli” suðaustan við bæinn.

· Vatnsleysustrandarhreppur: Tvö svæði á Vogastapa.

Á fundi með framkvæmdastjóra GFF þann 19. maí var rætt um það sem vakti athygli við útplöntunina í Krýsuvík í vikunni á undan. Þar kynnti skýrsluhöfundur hugmyndir um gerð vefinnsláttarviðmóts sem gæti aukið áreiðanleika þeirra gagna sem safnað væri. Það ásamt ítarlegu námskeið fyrir verðandi flokkstjóra á Suðurnesjum átti að auka líkurnar á því að meginstoðir verkefnisins kæmu allar við sögu, þ.e.

1. Uppgræðsla

2. Menntun

3. Þekking

Skýrsluhöfundi var því falið að hefja vinnu við gerð vefinnsláttarviðmót, þannig að unnt væri að kynna frumdrög þess á námskeiði með flokkstjórum rúmri viku síðar.

Námskeið fyrir flokkstjóra

Þann 28.maí var haldið námskeið til að kynna flokkstjórum bæði hugmynda- og aðferðafræði verkefnisins. Alls tóku 13 manns þátt í námskeiðinu. Námskeiðið var all ítarlegt og stóð yfir í heilan dag. Fyrri hluta dags voru allir staðirnir sem planta átti á heimsóttir og höfð var sýnikennsla á plöntun á einum klasa. Að því loknu var snæddur hádegisverður á veitingastað Bláa Lónsins í Svartsengi. Þar spruttu upp skemmtilegar umræður um mismunandi aðferðir sem flokkstjórar höfðu hugsað sér. Einn flokkstjóranna lagði mikla áherslu á vökvun plantnanna, annar lagði áherslu á að þægir krakkar yrðu valdir í hópinn, einn vildi helst bara stelpur í hópinn o.s.frv. Þegar líða tók á sumarið kom í ljós að þessir þættir reyndust hafa mikil áhrif á útkomu verkefnisins á hverjum stað. Að loknum hádegisverði var farið í Eldborg, húsakynni Hitaveitu Suðurnesja og fengu flokkstjórarnir þar fyrirlestur um hugmynda- og aðferðafræði verkefnisins. Ítarlegri myndsýningu var varpað uppá vegg og fylgir hún með á geisladiski skýrslunnar.

Gerð vefinnsláttarviðmóts

Hýsing og forrit

Eftir að frumdrög innsláttarviðmótsins höfðu verið kynnt á flokkstjórafundinum hófst vinna við að gera viðmótið hæft til gagnasöfnunar. Viðmótið miðast að því að upplýsingarnar sem bæjarvinnuflokkarnir söfnuðu yrðu sem áreiðanlegastar og nýttu jafnframt það tölvulæsi sem nemendur vinnuskólans hefðu. Viðmótið var ofið í Front Page 2002 vefsmíðaforriti og hýst á Microsoft netþjóni með FrontPage 2002 viðbætum undir slóðinni http://skhi.khi.is/gff . Notaðar voru gagnagrunnstengingar við Microsoft Access 2002 gagnagrunnsforrit og fór eftirvinnsla gagnanna jafnframt fram í því forriti.

Unnið með áreiðanleika

Gengið var út frá því að nemendur vinnuskólans hefðu talsvert tölvulæsi. Tölvukennsla og tölvutímar eru oft á tíðum meðal vinsælustu kennslustunda í grunnskólanum og algengt að nemendur hafi aðgang að tölvum og internetinu heima hjá sér. Því var gert ráð fyrir að nemendurnir sýndu vel ofnu innsláttarformi á vefnum meiri áhuga og ynnu verk sitt af meiri nákvæmni en ella.

Ýmiskonar vandkvæði við voru sýnileg við innslátt gagnanna í Krýsuvík. Nemendurnir áttu erfitt með að færa sig á milli reita í skjalinu þar sem að „TAB“ takkinn færði bendilinn ekki í næsta innsláttarreit eins og venja er í vel hönnuðu innsláttarviðmóti Nemendurnir þurftu að slá inn upplýsingar um hæð, þvermál og tegund 25 plantna á einu eyðublaði. Þegar nemendurnir voru búnir að slá inn upplýsingar um nokkrar plöntur vildi einbeitingin oft þverra og því gat t.d. komið fyrir að þau skrifuðu að planta væri 31 millimetri í þvermál í staðinn fyrir 3,1 millimetra o.s.frv. Einnig var algengt að ósamræmi væri í því hvort nemendur notuðu punkta eða kommur til að slá inn aukastafi, gps hnit og dagsetningu. Stundum gleymdist að merkja við hvaða áburðargjöf var notuð o.s.frv. Allt þetta varð til þess að draga varð verulega í efa áreiðanleika þeirra gagna sem komu frá nemendunum. Svo virtist að stór hluti vinnu umsjónarmanna verkefnisins færi í að sía gögnin sem komu frá nemendunum svo að unnt væri að vinna með þau frekar.

Vefurinn og upphafssíðan

Að gefnu tilliti til þessa var ákveðið að vefa innsláttarform sem ýtti undir vandvirkni hjá nemendunum, bæði með verulegri gagnvirkni og þeim möguleika að þau gætu strax skoðað árangurinn af innslættinum. Útkoman varð 5 síðna vefur. Fyrsta síðan, svonefnd upphafssíða innihélt stutta lýsingu á LAND-NÁMs verkefninu og tilgangi vefsins. Neðst á síðunni var sjálfvirkur teljari sem taldi hvað væri búið að skrá upplýsingar um margar plöntur í grunninn. Þetta var gert til að nemendurnir sæu umfang þess verkefnis sem þau væru að taka þátt í og samsvöruðu sér við aðra vinnuskóla þar sem talan hafði iðulega hækkað á milli þess sem þau mættu til að slá inn gögnin. Jafnframt var talið að gagnvirknin ýtti undir áhuga nemendanna og löngun þeirra til að tileinka sér vísindaleg vinnubrögð.

Skráningarskýrslan

Sjálft innsláttarformið var nefnt skráningarskýrsla. Hún var þannig gerð að forritið fór sjálfkrafa yfir hvort eyðublaðið var rétt fyllt út áður en unnt var að senda það af vefnum yfir í sameiginlega gagnagrunninn. Uppsetning skráningarsíðunnar var miðuð við að gera hana sem aðgengilegasta og sem líkasta eyðublaðinu sem nemendurnir höfðu notað við plöntunina. Ef innslátturinn hafði á einhvern hátt farið fram yfir þær takmarkanir sem skilgreindar voru gaf vefurinn upp villuskilaboð sem beindi notandanum á það gildi sem var vitlaust fært. Notaðir voru felligluggar á öllum þeim stöðum sem það var unnt s.s. í vali á sveitarfélagi og áburðartegundum. Slíkt kemur í veg fyrir ósamræmi í innslætti. Þar sem ekki var unnt að nota felliglugga t.d. við innsetningu gps hnita og dagsetningar voru notaðar annars konar takmarkanir. Þar var bara hægt að nota punkta og tölustafi við innsláttinn og fjöldi tölustafanna þurfti alltaf að vera sá sami. Reitir fyrir hæð og þvermál voru takmarkaðir á þann hátt að alltaf þurfti að nota tölustafi og kommur. Einnig var ekki hægt að færa inn gildi fyrir hæð sem voru minni en 4 og stærri en 50. Að sama skapi var ekki hægt að færa inn gildi fyrir þvermál sem voru minni en 1 og stærri en 8. Tegundirnar var hægt að velja með svokölluðum útvarpshnöppum en þeir voru skilgreindir fyrirfram þannig að fyrstu 24 sætin gerðu ráð fyrir að þar væri valið birki en 25. sætið var skilgreint sem reynir.

Mælingasíðan

Í lok júlí þegar að ljóst var að verulegur vöxtur hafði orðið á þeim plöntum sem fyrst hafði verið plantað út varð áhugavert að safna saman upplýsingum um vöxt plantnanna um sumarið. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að plönturnar yrðu mældar upp sumarið 2004 en þar sem plöntunin hafði gengið mjög hratt fyrir sig var ákveðið að mælingin gæti farið fram síðsumars eða í lok júlí. Því var ákveðið að hver vinnuhópur skyldi safna saman upplýsingum um 10 fyrstu klasana m.t.t. að ná upplýsingum um sem flestar áburðartegundir. Þegar farið var að skoða svæðin sem plantað hafði verið á vakti athygli mismunur á vexti og litbrigðum trjátegundanna þriggja í mismunandi áburðarefnum. Ákveðið var að kanna nánar 6 atriði. Því var búin til sérstök mælingasíða þar sem bætt var við felliglugga hjá hverri plöntu þar sem skráð var hvort eitt af eftirfarandi ætti við plöntuna:

1. engin athugasemd

2. brotin planta

3. dauð planta

4. gul blöð

5. rauð blöð

6. mikill blaðvöxtur

Til að koma í veg fyrir tvíverknað voru allir nánari upplýsingareitir um klasana fjarlægðir af mælingasíðunni. Það eina sem sem skráð var fyrir utan upplýsingar um plönturnar var dagsetning mælingarinnar, sveitafélag sem mælt var í og raðnúmer klasans.

Gagnagrunnur

Fjórða síðan var svokölluð gagnagrunnssíða þangað gátu krakkarnir farið og séð allar færslur sem færðar höfðu verið í grunninn. Ein færsla innihélt allar upplýsingar um einn klasa og plönturnar í honum. 10 færslur birtust á skjánum saman eftir þeirri röð sem þær voru slegnar inn. Einnig var hægt að lesa af skjánum hversu margar síður voru af færslum í grunninum. Gagna- grunnurinn var í byrjun af einföldustu gerð þ.e. ein tafla með mjög mörgum sviðum. Eitt svið var fyrir hverja breytu í klasanum. Með því að færa hliðarstikuna í vafranum gátu nemendurnir skoðað öll sviðin og þar með séð hverju þau höfðu áorkað.

Leit í gagnagrunni

Til að unnt væri að sýna nemendunum fram á hagnýtingu þess að hafa gögnin í gagnagrunni var ofin leitarsíða sem hægt var að komast inná með krækju af gagnagrunnssíðunni. Með því móti var t.d. hægt að sýna krökkunum að hægt væri að kalla fram hæðartölur klasa sem hafði verið plantað út með moltu. Þessi síða vakti athygli nemendanna og varð til þess að hvetja enn frekar til vandaðra vinnubragða.

Dæmi um hagnýtingu upplýsinga

Þar sem að athugunin beindist að því hvernig verkefnið í heild fór fram verða gögnin sem söfnuðust um sumarið ekki ítarlega greind í þessari skýrslu. Aftur á móti verða hér tekin fyrir einstök dæmi sem gera grein fyrir möguleikanum á hagnýtingu þeirra upplýsinga sem nemendur vinnuskólannna söfnuðu sumarið 2003. Dæmin eru tekin frá nemendum vinnuskóla Gerðarhrepps. Þeir mældu upp 10 fyrstu klasana sem þeir settu niður. Svæðið sem þeir plöntuðu í var aflögð malarnáma í landi Langholts, sunnan þéttbýlisins í Garði.

Áreiðanleiki

Öflun gagna og vinna nemenda með þau eru meginatriði menntunarþáttar LAND-NÁMs verkefnanna. Til að gögnin megi verða uppspretta þekkingar um vöxt og viðgang trjáplantna í Landnámi Ingólfs, þarf að tryggja áreiðanleika þeirra. Þegar flokkstjórarnir voru inntir álits á þessu máli var sama svarið hjá öllum fimm flokkstjórunum. Það var þeirra reynsla að þeir nemendur sem voru að ljúka grunnskólanum þ.a.s. nemendur á 16. ári og eldri nemendur voru nær undantekningalaust áreiðanlegri og vandvirkari í þeim störfum sem þeim voru falin. Að sama skapi þurfti mikið meira að hafa fyrir þeim nemendum sem yngri voru. Sumir flokkstjóranna settu spurningarmerki við þátttöku svo ungra nemenda í verkefninu. Í einum hópnum var meðalaldur nemendanna mun hærri en hjá hinum fjórum. Þar hafði sveitafélagið ákveðið að taka inn í verkefnið ungt fólk sem var í atvinnuleit. Þessi hópur kom að verkefninu með allt öðru hugarfari en hinir fjórir. Hópurinn leit á verkefnið mun frekar sem vinnu en fræðslu og leysti verkefnin sem slík. Taka ber fram að þó eldri nemendur hafi aflað áreiðanlegri gagna þá snertir það bara eina meginstoð verkefnisins þ.e. þekkingarþáttinn. Menntunarþáttturinn hinsvegar skilaði betur hjá þeim nemendum sem voru að ljúka 10. bekk grunnskólans heldur en hjá eldri nemendum. Víkjum nánar að því síðar.

Veðrið

Áður en gerð verður grein fyrir þeim vexti sem var á plöntunum fyrstu tvo mánuði sumarsins 2003 er vert að gera grein fyrir veðurfarinu. Hiti var mjög hagstæður trjávexti. Til að setja hitatölurnar í samhengi við fyrri ár er vert að skoða hitatölur frá Keflavíkurflugvelli en flugvöllurinn liggur nokkuð miðlægt milli þeirra svæða þar sem trjáplöntunin fór fram. Þær tölur sem voru aðgengilegastar var að finna á vef Veðurstofu Íslands en þær voru frá árinu 1961 og fram til dagsins í dag. Þær tölur sýndu að meðalhiti í júní 2003 var sá hæsti sem hægt var að finna í gögnunum. Jafnframt var meðalhiti í júlí 2003 annar hæsti meðalhiti mánaðarins að júlí 1991 undanskildum.

Meðalhitastig í júní og júlí á Keflavíkurflugvelli 1961-2003

6,0

7,0

8,0

9,0

10,0

11,0

12,0

13,0

1961196319651967196919711973197519771979198119831985198719891991199319951997199920012003

ár

hiti

hiti í júní

hiti í júlí

Vöxtur

Meðalhæð fyrstu 10 klasanna (80% birki, 16% víðir og 4% reynir) sem nemendurnir í Gerðahreppi settu niður dagana 10. og 11. júní reyndist samkvæmt gögnunum vera 18.3 sentimetrar. Við mælingarnar síðar um sumarið 23. og 27. júlí reyndist meðalhæð plantnanna orðin 23.1 sentmetri þetta sýndi meðalvöxt uppá 4.8 sentimetra á aðeins 47 daga tímabili. Mikill mismunur var á vexti plantnanna eftir því hvaða áburðartegundir voru notaðar.

Mismunur milli áburðartegunda

Þegar plönturnar voru mældar upp voru fyrirfram skilgreindar athugasemdir settar við hverja plöntu. Ein af athugasemdunum var mikill blaðvöxtur. Mikill blaðvöxtur er jafnframt góður mælikvarði á hraustleika hverrar plöntu. Þetta mat nemendanna var huglægt og ekki skilgreint með nokkrum mælikvarða. Upplýsingarnar sem fengust úr þessari athugun sýndu að af þeim 250 plöntum sem athugaðar voru fengu 163 plöntur einkunnina mikill blaðvöxtur. Þessar 163 plöntur skiptust svo mismunandi á milli áburðartegunda. Flestar plönturnar með miklum blaðvexti 22 talsins voru í þeim klasa sem hafði einungis fengið moltu sem áburðarefni.

Ef skoðaðar eru þær plöntur sem fengu einkuninna gul blöð. Þá má sjá að af þeim 69 plöntum sem fengu einkunnina voru 12 þeirra með áburðartegundina svínaþurrefni með grasfræi og tilbúnum áburði. Einnig má sjá að einungis ein planta sem hafði moltu sem áburðartegund fékk einkunnina gul blöð

Plöntur með gulum blöðum

0

2

4

6

8

10

12

14

Svínaþurrefni,

grasfræ + tilbúinn

áburður

Svínaþurrefni+uppgr

+tilb áb

Tilb áb+uppgröftur,

grasfræ + tilbúinn

áburður

Molta+uppgr 50/50,

grasfræ + tilbúinn

áburður

Molta, grasfræ +

tilbúinn áburður

Molta+uppg+tilb ábMolta+uppgr 50/50

Svínaþurrefni+tilb ábSvínaþurrefni+uppgr

50/50, grasfræ +

tilbúinn áburður

Molta

Plöntur með gulum blöðum

Þær plöntur sem fengu einkunnina engin athugasemd voru einungis 14. Af þeim voru 6 plöntur með áburðartegundina molta+uppgr 50/50, grasfræ með tilbúnum áburði. Varhugavert er að draga ályktanir út frá svo fáum plöntum.

Einungis fengu 7 plöntur athugasemdina rauðblöð af þeim voru 3 plöntur með áburðartegundina svínaþurrefni en hinar 4 höfðu moltu í einhverri mynd sem áburðartegund. Taka verður fram að varhugavert er að alhæfa út frá svo fáum plöntum en niðurstöðurnar geta þó gefið vísbendingar um hluti sem skoða má frekar.

Plöntur með rauðum blöðum

0

1

2

3

4

Svínaþurrefni,

grasfræ +

tilbúinn áburður

MoltaMolta, grasfræ

+ tilbúinn

áburður

Molta+uppgr

50/50, grasfræ

+ tilbúinn

áburður

Plöntur með rauðum

blöðum

Allar þessar upplýsingar eru vel fallnar til frekari athuganna. Eins og sjá má þá er mikill blaðvöxtur mestur hjá þeim plöntum sem hafa fengið moltu sem áburðartegund. Jafnframt er áberandi að plöntur með moltu eru þær plöntur sem minnstar neikvæðar athugasemdir fá almennt. Því er áhugavert að skoða notkun áhrif moltunnar frekar. Hægt væri að skoða mun á meðalvexti plantnanna á milli áburðartegunda og mismun á bol og blaðvexti svo eitthvað sé nefnt. Frekari upplýsingar sem hægt væri að fá úr gagnagrunninum væri t.d. að athuga hvernig trjátegundirnar þrjár nýta mismnandi áburðartegundir. Möguleikarnir eru fjölmargir og margar spurningar leituðu á huga nemendanna þegar líða tók á plöntunina.

LAND-NÁM á Suðurnesjum

Vinnuhóparnir á Suðurnesjum voru 5 og undir stjórn jafnmargra flokkstjóra. Hóparnir unnu hver á sínu svæði sem var skilgreint af framkvæmdastjóra GFF í samráði við viðkomandi sveitarfélög. Hóparnir höfðu ekki formleg samskipti sín á milli og hittust ekki, að undanskildum hópunum úr Garði, Sandgerði og Reykjanesbæ sem fóru saman í fræðsluferð sem komið verður að hér á eftir.

Hóparnir fimm voru nokkuð misjafnir. Þó að öllum hópum hafi gengið vel að ljúka þeim verkefnum sem sett voru fyrir er við hæfi að reyna að lýsa því sem einkenndi hvern hóp, þeim vandamálum sem komu upp og reifa hugsanlegar ástæður sem liggja að baki. Þetta gefur vonandi gleggri mynd af þeim tölulegu upplýsingum sem koma á eftir.

Val í hópa

Stjórnendur vinnuskólanna í samráði við flokkstjórana á hverjum stað réðu því hverjir tóku þátt í verkefninu og hverjir ekki. Samsetning hópanna var mjög mismunandi bæði hvað varðar aldur, kyn og áhuga. Ekki var um hreint tilviljunarúrtak að ræða hjá neinum vinnuskólanna. Hagkvæmni réð mestu um hverjir lentu í verkefninu og hverjir ekki. Flestir þeirra sem hófu vinnu við verkefnið unnu eingöngu við það að mestum hluta allt sumarið.

Einn vinnuskólanna skar sig úr við val á nemendum til þátttöku í verkefninu. Flokkstjórinn boðaði nemendur vinnuskólans á fund þar sem skrá átti nemendur til þátttöku í verkefninu. Þar fengu nemendurnir stutta kynningu á því hvað átti að gera um sumarið og hvaða reglur giltu hjá viðkomandi flokkstjóra hvað varðaði almennt vinnulag, mætingu hegðun o.s.frv. Að því loknu fengu nemendurnir tækifæri á að bjóða sig fram til þátttöku. Þannig varð þessi hópur að nokkurskonar sjálfboðaliðahóp sem tók þátt í plöntuninni á eigin forsendum. Hjá sama hóp var bréfi dreift til foreldra til að virkja áhuga heima fyrir og gera foreldra meðvitaða um daglegan starfa barna sinna. Þetta reyndist þegar á leið sá hópur sem skilaði hvað bestu starfi og sýndi hvað mestan áhuga þegar á leið.

Aldur og kyn

Hóparnir voru á mjög dreifðu aldursbili frá 13-18 ára. Flokkstjórarnir sem unnu með nemendum af grunnskólastiginu minntust ítrekað á það að nemendur sem nýlokið höfðu grunnskólanum væru móttækilegri fyrir þeirri vinnu sem fram færi í verkefninu en aðrir nemendur.

Einn hópurinn var bara með nemendur úr 8. og 9. bekk. Þessi hópur átti augljóslega við agavandamál og áhugaleysi að stríða sökum ungs aldurs. Erfiðlega gekk að halda mannskapnum að verki.

Einn hópurinn hafði að stofni til 17. ára gamla stráka sem höfðu talið í upphafi að þeir yrðu við hefðbundna vinnuskólavinnu um sumarið. Neikvæðni var áberandi og trjáplöntun var ekki það sem þeir höfðu vænst.

Einn hópurinn var með einungis með 17. til 18. ára einstaklinga sem teknir höfðu verið inn af atvinnuleysisskrá. Þessi hópur gekk hreint til verks og lauk þeim verkefnum sem fyrir þau voru sett af dugnaði. Þessi hópur nálgaðist verkefnið aðallega út frá atvinnulegu sjónarmiði.

Einn hópurinn var aðallega með kvenkyns nemendur af síðasta ári grunnskólans. Þessi hópur einkenndist af jákvæðni og vandvirkni.

Einn hópurinn var aðallega með nemendur sem nýlokið höfðu grunnskólanum en þó bæði með einstaklinga nokkuð eldri (18) og yngri (13). Þessi hópur átti eftir að skila hvað bestu verki þegar frá leið og var þá sama á hverja hinna meginstoða var litið, uppgræðslu, menntun og þekkingu.

Flokkstjórar

Þrátt fyrir að skýra megi mismun á milli einstakra hópa með aldri, kyni og ýmsum öðrum þáttum hafði enginn þáttur jafnsterk áhrif og áhugi flokkstjórans. Þeir flokkstjórar sem höfðu sérstakan áhuga á einhverjum þætti eða mörgum þáttum LAND-NÁMs verkefnisins áttu greiðari leið að skilningi og áhuga nemendanna en aðrir. Einn flokkstjóranna hafði t.d. áhuga á fegrun viðkomandi bæjarfélags. Annar hafði áhuga á því hvernig ungmenni vinna saman í hóp. Sá þriðji hafði áhuga á garðrækt og sá fjórði áhuga söfnun upplýsinga í tölvum. Sumir höfðu áhuga á einum þætti aðrir áhuga á mörgum, jafnvel öllum ofangreindum þáttum.

Fleiri þættir höfðu áhrif á áhuga flokkstjóranna og þá jafnframt áhuga nemendanna en það var undirbúningur af hálfu aðstandenda verkefnisins. Hjá sumum hópum urðu t.d. vandræði með flutning á fólki og aðföngum til og frá plöntunarstað, aðrir fengu sjaldan heimsókn frá forstöðumönnum sveitarfélagsins og vinnuskólans o.s.frv. Þó að í meirihluta tilfella hafi þessum málum verið vel fyrir komið hafði aðkoma sveitarfélaganna og GFF greinilega mikil áhrif á áhuga flokkstjóranna.

Skólar

Samið var við grunnskóla á hverjum stað fyrir sig að fá aðgang að tölvuveri til að slá gögnin inn í vefviðmótið. Mun skemmri tíma tók að slá gögnin inn í vefviðmótið en gert hafði verið ráð fyrir. Hver nemandi fékk eina tölvu til umráða og þannig voru iðulega um og yfir 10 nemendur við innslátt samtímis. Nemendurnir sýndu yfirleitt mikla færni við innsláttinn bæði hvað varðar nákvæmni, einbeitingu og þol. Hver hópur sló inn fjölbreyttar upplýsingar um u.þ.b. 2000 plöntur um sumarið. Innslátturinn tók venjulega ekki meira enn 2-3 klukkutíma einu sinni hvorn mánuð. Kaldir rigningardagar voru iðulega nýttir til verksins. Í samtölum við nemendurna kom fram að þeim fannst gaman að vinna launaða vinnu í umhverfi sem þau þekktu frá liðnum vetri.

Í nokkrum skólanna sýndu skólastjórar og/eða kennarar verkefninu mikinn áhuga. Í samtölum við þá komu upp hugmyndir að frekari nýtingu verkefnisins í tengslum við þá kennslu sem nú þegar fer fram í grunnskólunum. Fram kom að fjölbreytt upplifun nemendanna af rannsóknum, meðferð upplýsinga og náttúruskoðunar gæti verið vel fallin til kennslu í flestum greinum og þá ekki síst í raungreinum.

Fræðsluferð

Í júlí var farið með nemendur í fræðsluferð. Þetta var gert til að styrkja menntunargildi verkefnisins og sýna fram á tengsl verkefnisins við störf mismunandi aðila. Af hagkvæmniástæðum var farið með hópana fimm í þrem ferðum. Tvo stærstu hópana sér og þrjá minni hópana saman. Þessi skipting gaf tækifæri á samanburði á því hvaða aðferðir gáfust best í skiplagningu slíkrar ferðar.

Í upphafi var keyrt upp að Næfurholti í Landsveit. Þar var farið í stutta gönguferð og útjaðar Galtalækjarskógar skoðaður. Þar er að finna hrikaleg dæmi um uppblástur og landeyðingu. Einnig má þar sjá glögg merki um vinnu heimamanna, Landgræðslu ríkisins og ýmissa uppgræðslusamtaka sem skilað hafa árangri í heftingu sandfoks og uppgræðslu. Saga Sandgræðslunnar (síðar Landgræðslunnar) var lauslega reifuð og margskonar náttúrufyrirbærum veitt sérstök athygli.

Að því loknu var keyrt að Gunnarsholti þar sem hópunum var veitt móttaka af starfsmönnum Landgræðslu ríkisins. Eftir stuttan fyrirlestur um starfsemina í Gunnarsholti gafst nemendunum tækifæri á að virða fyrir sér ýmsan fróðleik sem er til sýnis í Gunnarsholti. Staðarhaldarar buðu svo gestum sínum uppá súpu og brauð í mötuneytinu í Gunnarsholti.

Næst á dagskrá var heimsókn í Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði. Þar var tekið á móti nemendum og þeir leiddir um salarkynni skólans. Fyrst var skoðað gróðurhús þar sem er að finna stærsta safn pottaplantna á Íslandi. Næst var æfingasvæði skrúðgarðyrkjubrautarinnar skoðað. Þar á eftir var frumvinnsla moltu skoðuð og mismunandi aðferðir sýndar. Að því loknu bar að líta nýja tilraunastöð sem tekin var í notkun veturinn 2002-2003. Í tilraunastöðinni var hægt að skoða 9 mismunandi gróðurklefa sem innihéldu hver sína gróðurtilraun. Næst var kíkt í Bananahúsið en það inniheldur fjölda plantna sem lifa við hátt hita og rakastig. Að lokum var sýning á notkun múgsnerils við safnhaugagerð.

Ferðin tók heilan dag og innihélt mikinn fróðleik. Mjög mismunandi var hversu mikinn áhuga nemendurnir sýndu því sem þeim var boðið upp á. Best útkoma fékkst í þeim ferðum þar sem skýrar línur voru lagðar fyrirfram. Þessar línur fólu meðal annars í sér stutta umræðu í upphafi ferðar á því að bera ætti virðingu fyrir og veita athygli því sem gestgjafarnir á hverjum stað hefðu fram að færa og almenna háttvísi bæri að sýna í hvívetna. Mesta athygli veittu þeir nemendur sem voru með flokkstjóra sem sýndi mikinn áhuga.

Könnun á áhuga nemendanna

Eitt af grundvallarhugtökum LAND-NÁMs verkefnanna er menntun. Menntun nemenda er yfirgripsmikið hugtak sem erfitt er skilgreina til hlítar. Til að kanna menntunargildi LAND-NÁMs á Suðurnesjum var notuð sú skilgreining að vilji nemenda til að læra meira innan þess fags sem unnið sé með sé mælikvarði á menntunargildi þess. Til að kanna vilja nemenda til að læra meira innan þess fagsviðs sem LAND-NÁM var notaður notaður alþjóðlegur spurningalisti ROSE (The Relevance of Science Education).

ROSE spurningalistinn

ROSE spurningalistinn var búinn til í Noregi 2002. Spurningalistinn inniheldur fjölmargar spurningar sem notaðar eru til að varpa ljósi á áhugasvið og reynsluheim nemenda innan hins breiða sviðs náttúrufræðinnar. Spurningalistinn var þýddur á íslensku af skýrsluhöfundi ásamt tveimur öðrum kennaranemum í tengslum við lokaverkefni þeirra frá Kennaraháskólanum vorið 2003. Við gerð lokaverkefnisins var spurningalistinn lagður fyrir 620 nemendur í 10. bekk grunnskólans og niðurstöðurnar flokkaðar og túlkaðar.

Í viðleitni til að fá fram vísbendingar um áhrif LAND-NÁMs á Suðurnesjum á áhugasvið nemendanna innan náttúrufræðinnar var könnunin lögð fyrir nemendurna við lok vinnuskólans í enduðum júlí. Niðurstöðurnar voru svo bornar saman við landsmeðaltölin úr lokaverkefninu til að athuga hvort marktækan mismun væri að finna.

Spurningarnar

Við athugun spurningalistans voru 6 spurningar sem augljóslega tengdust LAND-NÁMs verkefninu meira en aðrar. Það voru spurningarnar:

A.Það sem ég vil læra um

Hversu mikinn áhuga hefur þú á að læra um eftirfarandi?

(Svaraðu með því að krossa í viðeigandi reit. Skildu línuna eftir auða ef þú skilur ekki spurninguna.)

15.Hvernig plöntur vaxa og fjölga sér

E.Það sem ég vil læra um

Hversu mikinn áhuga hefur þú á að læra um eftirfarandi?

(Svaraðu með því að krossa í viðeigandi reit. Skildu línuna eftir auða ef þú skilur ekki spurninguna.)

1.Samhverfur og mynstur í laufblöðum og blómum

17.Hvernig er hægt að bæta uppskeru í garðyrkju og landbúnaði

18.Notkun jurta til lækninga

19.Lífrænn landbúnaður þar sem ekki er notað skordýraeitur eða tilbúinn áburður

25.Gróður í heimalandi mínu

Við hverja spurningu voru 4 reitir þar sem hægt var að merkja við lægst „hef ekki áhuga“ og hæst „hef mikinn áhuga“ .

Niðurstöður

Af þeim sem svöruðu spurningalistanum voru einungis 15 nemendur úr vinnuskólanum við lok grunnskólans og af þeim voru einungis 3 strákar en 12 stelpur. Því var einungis hægt að fá marktækar niðurstöður með því að bera saman svörun stelpnanna 12 við svörun 298 stelpna af landsbyggðinni á sama aldri sem höfðu svarað sömu spurningum síðastliðinn vetur. Svörun stelpnanna var á þessa leið:

Súluritin sýna að þær stelpur á 16. ári sem tóku þátt í vinnuskólanum sýna spurningum tengdum grasafræði meiri áhuga en jafnöldrur þeirra í grunnskólanum sem ekki tóku þátt í vinnuskólanum. Þrátt fyrir að einungis 12 stelpur hafi verið fyrir hendi til að svara könnuninni í vinnuskólanum er hægt að fullyrða með 95% öryggi að undir gefnum kringumstæðum hafi þessi mismunur ekki verið háður tilviljun. Samanburður með T-prófi leiddi það í ljós. Einnig er hægt að sjá mismuninn myndrænt hér:

Myndin sýnir að meðaláhugi stelpna í vinnuskólanum er 2,47 eða u.þ.b. 0,5 yfir miðjum áhugaskalanum. Meðaláhugi stelpna á landsbyggðinni sem svöruðu spurningunum um veturinn er hins vegar einungis 1,92 sem er undir miðjum áhugaskalanum. Strikin út frá ferningunum sýna svo að möguleikinn á því að gildin liggi innan óvissumarka hvers annars er hverfandi. Ekki var hægt að sýna fram á tölfræðilegan marktækan mismun hjá öðrum kynja- eða aldurshópum án þess að aðrar stærri utanaðkomandi breytur sköpuðu verulegt óöryggi í túlkun niðurstaðnanna.

Eins og fram hefur komið er mjög margt sem spilar inní upplifun nemendanna í mismunandi hópum. Þær túlkanir sem settar eru fram hér á svörun nemendanna ber því að taka með góðum fyrirvara. Samt sem áður má taka niðurstöðurnar sem vísbendingu um það að tilfinning nokkurra flokkstjóranna hafi átt við rök að styðjast og gefur það því okkur tækifæri á segja að menntunargildi verkefnisins sé mælanlegt og jafnframt verulegt fyrir stelpur sem nýlokið hafa grunnskóla.

Samantekt

Á meðan að samstarfsverkefnið LAND-NÁM á Suðurnesjum stóð yfir var fræðsla og menntun virkur þáttur í starfi vinnuskólanna. Árangur starfsins er að stórum hluta háð því hvaða flokkstjórar veljast til verksins og hvaða starfsumgjörð þeim er veitt að hálfu vinnuskólans. Sjálfboðaþátttaka og virk samskipti við foreldra virðast skipta miklu máli. Stelpur sem nýlokið hafa 10. bekk virðast falla betur að menntunargildi verkefnisins eins það var sett upp á Suðurnesjum en aðrir nemendur (ekki voru nógu margir strákar til að unnt væri að draga ályktanir). Veðurfar var mjög hagstætt skógvexti á suðurnesjum sumarið 2003 Fyrstu niðurstöður mælinga gefa til kynna mikinn vöxt hjá þeim plöntum sem settar voru niður fyrr um sumarið. Notkun moltu virðist samkvæmt fyrstu niðurstöðum vera sérstaklega fýsilegur kostur. Tengsl grunnskóla og vinnuskóla í verkefninu voru jákvæð. Notkun vefviðmóts til að safna upplýsingum gaf góða raun og upplýsingarnar sem fengust voru áreiðanlegar. Frekari tengingar á milli starfs vinnuskólans og almennrar kennslu eru fyrir hendi og bíða þess að verða nýttar. Skipulagning og vinnubrögð allra aðila sem komu að verkefninu skiluðu sér í vinnubrögðum nemendanna. Áhugi og metnaður nemendanna endurspeglaði jafnframt áhuga og metnað flokkstjórans.

Lokaorð

Menntunargildi verkefnisins LAND-NÁMs á Suðurnesjum er óumdeilanlegt. Verkefnið myndar brú sem tengir saman starf vinnuskóla, grunnskóla og uppgræðslusamtaka á hátt sem ekki eru dæmi um áður. Frekari þróun þarf að eiga sér stað en möguleikar verkefnisins til menntunar og fræðslu virðast óþrjótandi. Gerð og notkun vefinnsláttarviðmóts varð einskonar þungamiðja í þátttöku minni í verkefninu. Sú aðferð við meðhöndlun upplýsinga virðst eiga vel við hjá nemendum vinnuskólanna. Meginmarkmið skóla, jafnt grunnskóla sem vinnuskóla hlýtur að vera að stuðla að ævilangri menntun í gegnum það starf sem hvert og eitt okkar kýs að starfa við. Þess vegna er tenging menntunar og starfs nauðsynleg hverjum þeim sem er að feta sínu fyrstu spor á vinnumarkaðnum. Með tilkomu LAND-NÁMs á Suðurnesjum í huga hvet ég því eindregið til frekari þróunar á menntunarmöguleikum vinnuskóla. Þeir eru að mínu mati vannýttur sjóður sem sveitarfélög um allt land hafa yfir að ráða og ættu að nýta íbúum sínum til góða.

Osló 22. september 2003

_____________________________

Kristján Ketill Stefánsson

Innihald geisladisks

1. Gagnagrunnur GFF (Accsess 2002 skjal)

2. Skýrsla til Nýsköpunarsjóðs (Word skjal)

3. Myndasafn frá sumrinu (JPEG skjöl)

4. Skráningareyðublað (Excel skjal)

5. ROSE spurningalistinn (Word skjal)

6. ROSE innsláttargögn (SPSS-skjal)

Heimildaskrá

Skýringarmynd af plöntuklasa.

plöntubor og hola

Eldborg í Svartsengi

Innsláttur gagna í grunnskólanum í Sandgerði

Gamall refaskítur í landi Voga orðinn að gróðurmold iðandi af ánamöðkum

Skýr gróðurskil í Krýsuvík

Birkiplanta í Krýsuvík í góðu skjóli

Miðjustaur, Reyniplanta og GPS staðsetningartæki

Reynir í Krýsuvík í góðu skjóli

Nemandi mælir hæð með málbandi

Nemendur Flensborgarskólans að störfum í Krýsuvík

Nemendur Flensborgarskólans að störfum í Krýsuvík

Frá undirritun samninganna.

Excel skjalið sem nemendurnir fylltu út

Upphafssíða vefsins

Innsláttarformið

Mælingasíðan

Gagnagrunnssíðan

Leitarsíðan

Aflögð malarnáma í Gerðarhrepp. Síðsumars var botn námunnar klæddur lífrænum efnum

Dæm um mikinn vöxt. Takið eftir myntinni

Svínaþurrefni

Molta

Þrír hópar í fræðsluferð í Næfurholti

Vogahópurinn í Garðyrkjuskóla Ríkisins

Þrír hópar í fræðsluferð í Næfurholti

Flokkstjórakynning í Eldborg í Svartsengi

Innsláttur gagna í grunnskólanum í Sandgerði

Nemendur í fræðsluferð í Næfurholti

Móttaka í Garðyrkjuskóla ríkisins

� Veðurstofa Íslands. 2003, 22. september. „ Meðalhitastig á Keflvíkurflugvelli 1961-2003“ Vefslóð: � HYPERLINK "http://www.vedur.is/vedurfar/yfirlit/medaltalstoflur/Stod_990_Keflavikurflugvollur.ManMedal.txt" ��http://www.vedur.is/vedurfar/yfirlit/medaltalstoflur/Stod_990_Keflavikurflugvollur.ManMedal.txt�

� © Dept. of Teacher Education and School Development, University of Oslo, Box 1099 Blindern, 0317 Oslo, Norway and Svein Sjöberg (� HYPERLINK "mailto:[email protected]" ��[email protected]�)

� ROSE rannóknin á Íslandi. Gunnar H. Gunnarsson, Heimir Haraldsson og Kristján K. Stefánsson. B.Ed.-ritgerð. 2003. Kennaraháskóli Íslands. Reykjavík.

LAND-NÁM á Suðurnesjum25Kristján Ketill Stefánsson