14
1 Háskóli Íslands Félags- og mannvísindadeild FÉL027F haust 2010: Atvinnulíf og skipulagsheildir - þróun, stefnumótun og stjórnun ÞÁTTTAKA UNGLINGA OG KYNNI AF ATVINNULÍFINU Kennari: Halldór Þór Grönvold Nemandi: Arnar Þorsteinsson

Unglingar og atvinnulif

Embed Size (px)

DESCRIPTION

Ritgerð úr námskeiðinu atvinnulíf og skipulagsheildir

Citation preview

Page 1: Unglingar og atvinnulif

1

Háskóli Íslands Félags- og mannvísindadeild

FÉL027F haust 2010:

Atvinnulíf og skipulagsheildir - þróun, stefnumótun og stjórnun

ÞÁTTTAKA UNGLINGA OG KYNNI AF ATVINNULÍFINU

Kennari: Halldór Þór Grönvold

Nemandi: Arnar Þorsteinsson

Page 2: Unglingar og atvinnulif

2

Inngangur

Lengi hafa verið skiptar skoðanir á því hversu heppileg þátttaka ungmenna í launavinnu sé.

Þar hafa menn gjarna skipst í tvær fylkingar, þá sem vill leyfa börnum að njóta æskunnar

frjálsum frá alvarleika fullorðinsáranna og hina sem lítur á kynni af atvinnulífinu sem hluta

þess þroskaferlis að nálgast fullorðinsárin auk þess sem nauðsynlegt sé að börn læri að tengja

saman nám og starf.

Í okkar vestræna samfélagi hefur fyrrnefnda sjóðarmiðið verið nokkuð ríkjandi undanfarna

áratugi. Meðal annars hafa verið settar saman prýðilegar vinnuverndarreglugerðir til þess að

minnka líkur á því að þátttaka barna og unglinga í atvinnulífinu komi niður á námi og

persónulegum þroska þeirra. Hitt sjónarmiðið hefur samt sem áður ekki fallið í gleymsku, að

ungt fólk þurfi á einhverjum tímapunkti að kynnast fjölbreytileika atvinnulífsins, veröld

vinnunnar og þar með fullorðinsáranna. Í dag virðist umræðan snúast um hvort ekki megi

fara hér bil beggja, vernda unga fólkið frá hættum vinnunnar en leyfa því að njóta góðs af

kostum hennar. Slíkt geti hugsanlega orðið hvoru tveggja til framdráttar, skólanámi barnanna

og atvinnulífinu.

Í eftirfarandi ritgerð verða þessi tvö viðhorf reifuð og hvernig megi sem best, að minnsta

kosti, kynna börnum og unglingum fjölbreytileika atvinnulífsins með það að leiðarljósi að

þau læri að tengja saman nám og starf. Hugmyndir fræðimanna eru settar í samhengi við

íslenskan veruleika og það hvernig okkur gengur að feta þann meðalveg milli þess að vernda

börn og unglinga frá hættum vinnunnar og þess að kynna þeim þá veröld hennar sem við

tekur að námi loknu.

Page 3: Unglingar og atvinnulif

3

Barnæskan og vinnan

Áhyggjur vegna atvinnuþátttöku barna og unglinga og viðeigandi jafnvægis milli náms og

vinnu hafa verið viðvarandi frá því í upphafi síðustu aldar. Þeirri spurningu hefur verið

varpað fram hvort unglingar séu of snemma hvattir til að líkja eftir lífi fullorðna fólksins sem

síðan komi niður á þroska þeirra og námsárangri. Þar hefur ótímabær þátttaka á

vinnumarkaði verið talinn með öðrum áhættuþáttum (Zimmer-Gembeck og Mortimer, 2006).

Vinna barna og unglinga á sér auðvitað langa sögu en í kjölfar Iðnbyltingarinnar má segja að

margvíslegar vangaveltur um réttmæti slíkrar vinnu hafi orðið áberandi. Skólum fjölgaði

einnig auk þess sem nýjum kenningum um æsku og uppeldi fór að vaxa fiskur um hrygg.

Barnæskan var álitin tímabil þar sem börn ættu rétt á að njóta fullkominnar verndar frá

hörðum heimi fullorðna fólksins og varð þetta viðhorf hinu yfirsterkara sem leit svo á að

fullorðinsárin væru aðeins framlenging af æskunni sem aðeins hefði gott af innsýn í þann

veruleika sem við tæki. Allt olli þetta því að hyggilegra þótti að börn og unglingar sæktu

skóla og sinntu ekki öðrum störfum samhliða námi (Bourdillion, 2006). Börn ættu að fá að

njóta æsku sinnar og öll viðgangsefni þeirra skyldi meta eftir því hvaða andlegu og

uppeldislegu áhrif þau hefðu. Var námið og skólinn, ásamt frístundum þar í fyrsta sæti og

höfðu þessar hugmyndir því afgerandi áhrif á að miklar takmarkanir voru gerðar á

atvinnuþátttöku barna (Zimmer-Gembeck og Mortimer, 2006).

Á fyrri hluta síðustu aldar var því æ meiri áhersla lögð á að börn stunduðu skólann af kappi

enda þekkingin sem þar fengist mikilvægari þátttöku í atvinnulífinu ekki síst vegna aukinnar

sérhæfingar og flóknari verkefna á vinnumarkaði. Í Bandaríkjunum varð þessi þróun til

dæmis mjög hröð, unglingar flykktust í skóla á meðan stöðugt dró úr þátttöku barna og

unglinga í atvinnulífi. Aðeins um 5% útskrifuðust úr „high school“ 1890 en sú tala var

komin yfir 50% 1940 (Zimmer-Gembeck og Mortimer, 2006).

Margt hefur síðan í tímans rás flækt vangaveltur um kosti og galla atvinnuþátttöku fólks undir

18 ára aldri. Skilgreiningar á hugtökum, meðal annars hvað það er að vera barn, auk

mismunandi aðstæðna og áhersla eftir menningarsvæðum hefur, svo dæmi sé tekið, gert

Alþjóðasamninga um málefnið nokkuð flókna (Þóra Björnsdóttir, 2009). Þó er í vestrænum

samfélögum almennt miðað við 18 ára aldur og vinnuverndarlög og reglugerðir, meðal annars

sú íslenska, miðast við þann aldur. Dæmi um þær flækjur sem slíkar skilgreiningar hafa haft í

för með sér má raunar finna strax í fyrstu grein íslensku reglugerðarinnar um vinnu barna og

unglinga (Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 1999). Þar er greint á milli þrenns; „ungmenni“

Page 4: Unglingar og atvinnulif

4

merkir einstakling undir 18 ára aldri, „barn“ undir 15 ára eða í skyldunámi og loks er

„unglingur“ einstaklingur sem náð hefur 15 ára aldri en er undir 18 ára og ekki lengur í

skyldunámi. Einnig hafa áhyggjur af barnaþrælkun, ungum hermönnum og kynlífstengdri

vinnu (Þóra Björnsdóttir, 2009) orðið til þess að flækja málin og er þá samt sem áður fátt eitt

upp talið.

Í stuttu máli má þó segja að tvö sjónarmið hafi tekist á, sjónarmið sem endurspegla ólíkar

hugmyndir um barnæskuna. Annars vegar er horft til æskunnar sem tímabils í lífinu þar sem

fullorðnir vernda börn sem aftur eiga að vera frjáls til að lifa og leika sér án tengsla við

markaðsöfl, ábyrgð og alvarleika lífsmynsturs fullorðna fólksins. Þátttaka í raunverulegu

atvinnulífi er hér því víðs fjarri þó horft sé til þess að börn geti tekið þátt í vinnu til að læra,

svo sem heimilisstörfum, án þess að aðrir hagnist beint af þeirri vinnu. Þetta viðhorf sem oft

er tengt hinum vestræna heimi hafnar allri annars konar vinnu enda sé með því verið að taka

æskuna frá börnunum (Bourdillion, 2006).

Hitt viðhorfið horfir til ólíkra efnahagslegra og menningarlegra aðstæðna sem einnig séu

mismunandi eftir aldri, getu og kyni. Stutt er við rétt barnsins til verndar og stuðnings en

horft á barnæskuna í samhengi við fullorðinsárin þar sem börnin færast smám saman í fang

verkefni fullorðinna eftir því sem hæfni þeirra eykst og möguleikum fjölgar. Samkvæmt

þessu viðhorfi er vinna eðlilegur þáttur í þroska barnsins þar sem þátttaka í atvinnulífi eykst í

lífi þess eftir því sem það þroskast og dafnar (Bourdillion, 2006).

Fyrrnefnda viðhorfið hefur verið nokkuð ráðandi á Vesturlöndum, einskonar

vinnuverndarsjónarmið þ.e. að andlegu og líkamlegu heilbrigði ungmenna sé ekki hætta búin

og að vinna hafi ekki truflandi áhrif á menntun þeirra og þroska samanber Reglugerð um

vinnu barna og unglinga (Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 1999). Þetta sjónarmiðið hefur

raunar verið það ráðandi í okkar heimshluta að Alþjóðastofnanir virðast jafnvel stefna að

afnámi allrar vinnu barna og unglinga þó hugmyndin um slíkt afnám sé ekki síst hugsuð sem

leið að öðrum og göfugri markmiðum svo sem eflingu menntunar, baráttu gegn sjúkdómum,

fátækt og barnaþrælkun í löndum þar sem börn búa við önnur og verri lífsskilyrði en hér á

Vesturlöndum (Þóra Björnsdóttir, 2009).

Page 5: Unglingar og atvinnulif

5

Hins vegar hefur á liðnum árum ítrekað verið bent á að vinna og kynni af vinnumarkaði geti

ekki aðeins haft neikvæð heldur einnig jákvæð áhrif á börn og unglinga, þroska þeirra og

námsframvindu (Bourdillion, 2006). Því hefur umræðan undanfarin ár í auknum mæli snúist

um þá eðlilegu grundvallarspurningu hvernig börn og unglingar geti fengið innsýn í heim

fullorðinna, þar með talið veröld vinnunnar, án þess að það taki tíma frá skóla og hafi áhrif á

persónulegan þroska (Zimmer-Gembeck og Mortimer, 2006).

Sú spurning tengist ekki síst tengslum á milli náms og starfs, samspili þessa tvenns og því

hvernig skólanám nýtist atvinnulífinu og hinu hvernig atvinnulífið geti haft jákvæð og

hvetjandi áhrif á nám barna og unglinga. Líkt og vinna er fullorðnum mikilvæg í fleiru en

efnahagslegu tilliti (Blustein, 2006) er spurning hvort vinnan ætti ekki að geta haft

margvísleg jákvæð áhrif á nám og þroska unglinga ef rétt er á spilum haldið.

Unglingar á vinnumarkaði

Fræðimenn hafa margir hverjir undrast það hversu lítil fræðileg áhersla hefur verið lögð á

áhrif launaðrar vinnu unglinga (Zimmer-Gembeck og Mortimer, 2006; Twenge, Campbell,

Hoffman og Lance 2010). Rannsóknir beinist gjarnan að fjölda vinnustunda en sjaldnar sé

skoðað hvað unglingar eru að gera í vinnunni, viðhorf þeirra til vinnunnar, samskipti þeirra á

vinnustað og almennt jákvæð og neikvæð áhrif vinnunnar og hvernig vinna unglinga getur

haft áhrif á það hvernig þeir standa sig sem fullorðnir í námi og starfi (Zimmer-Gembeck og

Mortimer, 2006).

Aukin réttindi og þátttaka barna og unglinga í samfélaginu hefur raunar orðið til þess að unga

fólkið hefur sjálft látið talsvert til sín taka á þessum vettvangi og barist fyrir sínum eigin

hagsmunum og réttindum á vinnumarkaði (Þóra Björnsdóttir, 2009). Enda svara börnin sjálf

því til að þau vinni til þess að afla sjálfum sér tekna. Börn eru nú einnig, hvort sem okkur

líkar það betur eða verr, mikilvægur markhópur kaupmanna, auk þess sem skoðun foreldra

virðist almennt sú að börn og unglingar geti að mestu ráðið því sjálf hvernig þau eyða eigin

vinnulaunum (Zimmer-Gembeck og Mortimer, 2006).

Þátttaka unglinga í atvinnulífinu samhliða námi er því umtalsverð víða í hinum vestræna

heimi þó rannsóknir hafi fram að þessu fremur snúnist um magn en gæði. Og margt hefur

verið vel gert hvað varðar vinnuvernd eins vikið verður að þegar horft er til stöðunnar hér

heima hvað þá hluti varðar.

Page 6: Unglingar og atvinnulif

6

Sem fyrr segir tengist spurningin hvort vinna ungmenna sé af hinu góða eður ei langvinnri

þrætu milli þess eðlilega markmiðs að vernda og hins að kynna veröld vinnunar og fá innsýn í

veruleika fullorðinsáranna (Zimmer-Gembeck og Mortimer, 2006). Fylgismenn síðarnefnda

viðhorfsins vitna meðal annars til skrifa Erikson (1968) sem hélt því fram að kynni af vinnu

og atvinnuleit væri eitt af lykilatriðum þess að læra að þekkja sjálfan sig, ekki síst í nútíma

tæknivæddum samfélögum. Það geti jafnvel leitt til margskonar persónulegra erfiðleika fái

ungt fólk ekki tækifæri til tengingar við vinnu og atvinnulíf.

Þetta viðhorf hefur nú verið að skjóta upp kollinum á ný og hefur hugsanlega aldrei fallið í

gleymsku því strax árið 1974 varpaði bandarísk vísindaráðgjafanefnd (Panel of Youth:

President´s Science Advisory Committee) fram þeirri spurningu hvort hugsanlega væri lögð

of mikil áhersla á skólanám sem undirbúning ungs fólks fyrir fullorðinsárin. Tekið var fram

hversu fáar vinnandi fyrirmyndir börn og unglingar hefðu aðrar en foreldra sína og kennara.

Mælt var með því að skólar og atvinnulífið tækju höndum saman við að kynna ungu fólki

raunverulegar vinnuaðstæður og að fullorðnir tækju virkari þátt í leiðsögn barna og unglinga

hvað varðar þátttöku í atvinnulífinu (Zimmer-Gembeck og Mortimer, 2006).

Í dag virðist áherslan í fræðaheiminum einmitt þessi; að samþætta hin tvö ólíku sjónarmið

enda spurningin kannski einmitt sú hvernig kynni barna og unglinga af atvinnulífi geti virkað

hvetjandi í námi, stuðlað að persónulegum þroska og aukið líkur á skynsamlegri tengingu á

milli náms og starfs. Þetta viðhorf má enda víða finna án þess að ætlunin sé að gera lítið úr

áherslu á hefðbundið skólanám. Bourdillion (2006) tekur til dæmis fram að auðvitað eigi

börn að fá öll tækifæri til að þroskast eðlilega, andlega sem líkamlega. Formlega menntun

þurfi einnig að bæta ásamt því að bæta aðgengi að henni og alla vinnu sem hamli slíkri

menntun eigi ekki að líða. Hins vegar geti nám og vinna vel samræmst hvort öðru og

skólabörn geti í mörgum tilfellum haft margvíslegan hag af því að sinna störfum sem þau

ráða vel við.

Zimmer-Gembeck og Mortimer (2006) virðast á sömu skoðun og vitna meðal annars í

rannsóknir á viðhorfum foreldra sem virðast trúa því að vinnan geti göfgað unglingana rétt

eins og þau töldu þátttöku í atvinnulífinu hafa hjálpað þeim sjálfum á sinni tíð. Þar lærist

enda margt jákvætt svo sem að bera ábyrgð, skuldbinda sig verkefnum, skipuleggja tíma sinn

og nota peninga skynsamlega. Einnig geti það styrkt sjálfstraust, sjálfsþekkingu, virðingu

fyrir sjálfum sér og trú á eigin hæfileika auk þekkingar á atvinnulífinu og þeirri hæfni sem þar

Page 7: Unglingar og atvinnulif

7

er krafist. Fyrir nú utan þann kost að læra að velja og hafna, þekkja úr óspennandi störf og

gera sér í leiðinni hugsanlega grein fyrir mikilvægi menntunar.

Þetta viðhorf er einnig að finna hjá Blustein (2006) sem segir að eitt hið mikilvægasta sem

komið hafi fram í fjölda rannsókna og yfirlitsgreina sé að nám og starf eigi að tengja vel og

skilmerkilega í námskrám, stoðþjónustu og félagsstörfum í tengslum við nám. Áherslan í

skólakerfinu eigi að vera sú að námsráðgjafar og kennarar aðstoði hvern og einn nemenda við

að skilja tengslin á milli náms og starfs. Niðurstöður Blustein sýna einnig fram á að tengsl við

aðra sem einkennast af stuðningi eru mjög hjálpleg við yfirfærslu frá skóla til vinnu og leggur

hann þar áherslu á mikilvægi hvetjandi námsumhverfis og stuðning fullorðinna við að fóta

sig í námi og starfi.

Miðað við niðurstöður nýlegra rannsókna ætti þessi málamiðlunarleið svo sem ekki að koma

á óvart. Í yfirlitsgrein Zimmer-Gembeck og Mortimer (2006) er farið vítt og breytt yfir það

svið. Þar kemur meðal annars fram að þó svo að unglingar í Bandaríkjunum stefni á

framhaldsnám tengja þeir hvorki núverandi né tilvonandi nám mikið hugsanlegri framtíð á

vinnumarkaði. Við slíkar aðstæður geti framtíðarstörf orðið nær fantasíum en raunverulegum

framtíðarmarkmiðum byggðum á skipulagi og tilgangi. Þar kemur einnig fram að það sé ekki

endilega sá tími sem vinna tekur frá náminu sem skipti máli heldur alls ekki síður „gæði“

þeirrar vinnu sem stunduð er. Því sé mikilvægt að auka rannsóknir á kostum og göllum vinnu

og vinnuumhverfis barna og unglinga því tilgangur slíkrar vinnu hljóti, að minnsta kosti

öðrum þræði, að vera sá að þau læri jákvæða hluti á borð við að bera ábyrgð, stýra tíma

sínum og standa sína plikt. Margt jákvætt annað geti þar spilað inn í svo sem aukið

sjálfstraust, sjálfsþekking og sjálfsvirðing, trú á eigin getu og það að læra að þekkja úr

áhugaverð störf með tilliti til eigin áhuga og hæfileika.

Vinnan geti hins vegar einnig verið vettvangur skipulagsleysis, mistaka, samstarfserfiðleika,

einhæfni og óviðunandi vinnuskilyrða sem við viljum eðli máls samkvæmt vernda börnin

gagnvart í lengstu lög (Zimmer-Gembeck og Mortimer, 2006).

Zimmer-Gembeck og Mortimer segja mjög vanta fræðilegan ramma sem stýri tilgátum milli

hinna margvíslegu hliða sem óneitanlega séu á vinnu unglinga. Eitt af því sem þurfi nánari

skoðun sé að hvaða leiti þarfir þeirra séu ólíkar þörfum hinna sem eldri eru. Vel geti verið að

sumir þættir vinnunnar séu unglingum mikilvægari svo sem möguleikinn til að þróa

félagshæfni sína, kynnast ólíkum starfsvettvangi, takmarka árekstra á milli skóla og vinnu og

fá styðjandi og skipulagða leiðsögn yfirmanna. Hins vegar geti störf sem fullorðnum finnist

Page 8: Unglingar og atvinnulif

8

óspennandi falið í sér áskoranir fyrir unglinga og ýtt undir hæfileika þeirra. Með því að

styrkja tengslin á milli vinnu og skóla eigi einnig að vera hægt að auka líkurnar á því að ungt

fólk skynji vinnuna sem framhald af náminu, hvoru tveggja til hagsbóta.

Þó það sé almennt samþykkt að menntun undirbúi ungt fólk undir hlutverk á vinnumarkaði,

er hún ekki eina sviðið þar sem ungt fólk undirbýr sig undir vinnu. Gagnsemi hvors tveggja

náms og reynslu af vinnu mætti styrkja með frekara samstarfi og viðurkenningu á hvoru fyrir

sig.

Því virðist sem að hugsanlega megi fara bil beggja milli hinna tveggja, að því er virtist,

andstæðu sjónarmiða um vinnu unglinga. Að minnsta kosti í því umhverfi sem við á

Vesturlöndum búum við, þar sem áhyggjur af barnaþrælkun og alvarlegri misnotkun barna á

vinnumarkaði eru af allt öðrum toga en víða annars staðar í veröldinni. Í því tilliti er rétt að

líta til okkar nánasta umhverfis.

Vinna barna og unglinga á Íslandi

Löng hefð er fyrir vinnu barna og unglinga hér á landi þó mikið hafi breyst í þeim efnum

undanfarin ár og áratugi í samræmi við þær hröðu samfélagsbreytingar sem hér hafa orðið.

Íslenskar rannsóknir sýna þó að enn er talsvert algengt að nemendur stundi vinnu með námi

þó þær rannsóknir hafi snúið að fjölda vinnustunda fremur en viðhorfum unglinganna eða

vinnuaðstæðum. Þannig kemur fram að 2006 virtust um 36% nemenda í 9. og 10. bekk vera í

hlutastarfi með námi og hafði þá lítið breyst frá 1997 þó vikulegur vinnutími hefði lengst

(Álfgeir Logi Kristjánsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon 2006). Í annarri könnun

sem gerð var skólaárið 2007-2008 kom fram að um 26% nemenda í 9. bekk ynnu með námi

(Amalía Björnsdóttir, Baldur Kristjánsson og Börkur Hansen, 2009) en þessar tölur virðast

hækka mikið þegar upp í framhaldsskóla er komið. Þannig sögðust 62% framhaldskólanema

þriggja skóla vinna með námi 2005 (Hannes I. Ólafsson, Björk Þorgeirsdóttir og Garðar

Gíslason, 2006).

Þetta ætti sennilega ekki að koma á óvart þar sem börn og unglingar eru mikilvægur

markhópur kaupmanna sem beina í æ meiri mæli markaðssetningu sinni í þá átt. Raunar

munu engin lög í landinu sporna við slíku samkvæmt nýlegum fréttum (Ríkisútvarpið, 2010).

Page 9: Unglingar og atvinnulif

9

Lítið ef nokkuð mun hins vegar til af rannsóknum á viðhorfum íslenskra unglinga til

vinnunnar, líðan þeirra á vinnustað eða annarra þeirra þátta sem áður hafa verið raktir. Ljóst

er að undanfarin ár höfum við lagt rækt við verndunarsjónarmiðið sem glögglega má sjá í

Reglugerð um vinnuvernd barna og unglinga. Þar er í 4. grein almennt ákvæði þar sem segir:

„Við öll störf ungmenna undir 18 ára aldri skal við val og skipulagningu á vinnu leggja

áherslu á að öryggi og andlegu og líkamlegu heilbrigði ungmenna sé ekki hætta búin og að

vinna hafi ekki truflandi áhrif á menntun þeirra og þroska.“ (Dóms- og kirkjumálaráðuneytið,

1999).

Er þetta í samræmi við fyrrnefnd sjónarmið Alþjóðasáttmála (Þóra Björnsdóttir, 2009) og í

takt við leiðbeinandi reglur Evrópusambandsins í þessum efnum þar sem ekki verður betur

séð en banna eigi vinnu grunnskólabarna undir 15 ára aldri og mjög strangar reglur eigi að

gilda um vinnu 15 – 18 ára (Lög Evrópusambandsins, 1994).

Á Íslandi höfum við sem betur fer ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af tengslum vinnu barna

og unglinga við barnaþrælkun eins og víða er raunin (Þóra Björnsdóttir, 2009). Hér er einnig

lítil hætta á að ungmenni neyðist til að hverfa frá námi vegna þátttöku í atvinnulífinu.

Reglugerð um vinnu barna og unglinga tekur einmitt sérstaklega til þess að „... vinna hafi

ekki truflandi áhrif á menntun þeirra og þroska“ (Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 1999) og

er augljóslega ætluð til að styðja einmitt við þær jákvæðu afleiðingar vinnunar sem minnst

hefur verið á; skapa unglingum möguleika til að eiga samskipti við mikilvægar fullorðnar

fyrirmyndir og þannig stutt þá við að byggja upp eigin sjálfsmynd og velta fyrir sér þeim

leiðum sem færar eru í námi og starfi. En þar er aðeins hálf sagan sögð. Tengsl náms og

starfs, fjölbreytileiki atvinnulífsins og þjálfun við ný og ögrandi verkefni fæst ekki lært með

vinnuverndarlöggjöf einni saman hversu góð sem hún annars er.

Það er aðkallandi spurning hvort atvinnuþátttaka ungs fólks á Íslandi í dag ýti undir þessa

fyrrnefndu jákvæðu þætti. Hvað er atvinnulífið, skólakerfið og ríki/sveitarfélög að gera til að

atvinnuþátttaka ungs fólks sé ekki aðeins mögulega heldur beinlínis líklegt til að stuðla að

jákvæðri upplifun og ýta undir metnað til frekari landvinninga á því sviði? Í Bandaríkjunum

hafa menn áhyggjur, ekki síst af þeirri staðreynd að margir eru í framhaldsnámi án nokkrar

tengingar við eitthvað sem þeir geta hugsað sér að starfa við að námi loknu (Zimmer-

Gembeck og Mortimer, 2006) og í nýlegri rannsókn Guðbjargar Vilhjálmsdóttur (2010) þar

sem fjallað er um tengsl starfshugsunar og brottfalls úr framhaldsskólum kemur fram að

framfarir í starfshugsun á aldrinum 15 – 16 ára auki líkur á að þau ljúki námi. Þykja þær

Page 10: Unglingar og atvinnulif

10

niðurstöður mikilvægar fyrir starfandi náms- og starfsráðgjafa og hvatning fyrir eflingu

náms- og starfsfræðslu fyrir unglinga í grunnskólum.

Náms- og starfsfræðsla

Nú hafa margir skoðanir á því hversu heppilegt það sé að börn og unglingar taki virkan þátt í

atvinnulífinu samhliða námi í grunn- og framhaldsskólum. Við það eru hvort tveggja kostir

og gallar eins og áður er rakið og fer nokkuð eftir aðbúnaði þeirra á vinnustað, samskiptum

og því hvaða áhrif vinnan hefur á ástundun námsins. Fræðsla um tengsl náms og starfs og

innsýn í fjölbreytileika atvinnulífsins ætti þó að vera, að minnsta kosti, nokkuð hættulítið

skref í þá átt að kynna börnum og unglingum veröld vinnunar og aðstoða þau við að skilja

mikilvægi hennar. Hvernig skyldi þeim þætti sinnt af skólakerfi og atvinnulífi?

Í skýrslu nefndar menntamálaráðherra til Alþingis (2008) er bent á að náms- og starfsfræðsla

sé „... frekar óburðug grein í íslensku skólakerfi.“ (s. 16). Markviss náms- og starfsráðgjöf

geti hins vegar „... gefið ungu fólki forskot í að afla sér grunnþekkingar og hæfni sem það

þarfnast á leið sinni til farsæls náms- og starfsvals.“ (s. 18). Að lokum er þar bent á að

fræðsla og ráðgjöf um nám og störf ætti að vera fastur liður í námsskrá hvers skóla auk þess

sem bæta þyrfti úr brýnni þörf fyrir námsefni í greininni.

Í lífsleiknihluta nýrrar Aðalnámskrár grunnskóla (2007) er í inngangi minnst á aukna áherslu

á náms- og starfsfræðslu sem í nánari útfærslu er fylgt eftir með markmiðum á borð við að

nemendur „geri raunhæfar áætlanir um náms- og starfsleiðir er standa til boða við lok

grunnskóla og geti nýtt sér ráðgjöf og upplýsingatækni í þeim tilgangi“, „geti sett sér raunhæf

markmið til að stefna að í lífinu“, „öðlist skilning á atvinnulífinu í samhengi við námsleiðir

og starfsval“ og „nýti ráðgjöf um náms- og starfsleiðir.“ Fátt er hinsvegar að finna um það

hvernig best sé að nálgast þessi góðu markmið og raunar virðist alvöru umræða um náms- og

starfsfræðslu í grunnskólum enn á byrjunarstigi þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Náms- og starfsfræðsla er raunar ekki lengur til sem sérstök námsgrein heldur felld undir hatt

lífsleikni í námskrám hvort tveggja grunn- og framhaldsskóla og þó svo að í lögum um

framhaldskóla (2008) segi að skólinn skuli búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og

frekara nám virðist hvorki þar né í grunnskólanum hugað sérstaklega að almennri náms- og

starfsfræðslu að minnsta kosti ekki fyrir milligöngu þeirra náms- og starfsráðgjafa sem þar

starfa (Sigríður Dísa Gunnarsdóttir, 2006). Frá þessu virðast þó einstaka undantekingar sem

Page 11: Unglingar og atvinnulif

11

þá byggja á einstaklingsframtaki á borð við námsefni Tækniskólans ”Lífsbrautin” (Sigurjóna

Jónsdóttir, 2010).

Um þátttöku atvinnulífsins á þessu sviði virðist svipað ástatt, einstaka einstaklingsframtak en

engin heildarstefna að því er best verður séð. Þar virðast ýmis sóknarfæri sem eru vannýtt en

sem dæmi má nefna að stefna Vinnuskóla Reykjavíkur virðist tengjast umhverfisvernd,

garðyrkju og þekkingu á höfuðborginni miklu fremur en að veita unglingum innsýn í heim

vinnunnar (Vinnuskóli Reykjavíkur, e.d.). Eru þau markmið auðvitað góðra gjalda verð en

samt sem áður spurning hvort við getum ekki gert svo miklu, miklu betur.

Niðurstöður/umræða

Þó svo að sú áhersla sem lögð hefur verið á vinnuvernd barna og ungmenna í okkar

heimshluta sé mjög af hinu góða, og margt hafi áunnist í þeim efnum, virðist sem að fleiru sé

að hyggja. Eins og bent hefur verið á getur þátttaka barna og unglinga á vinnumarkaði

vissulega verið farvegur neikvæðra hluta á borð við mistaka, samstarfserfiðleika, einhæfni og

óviðunandi vinnuskilyrða. Ekki má þó gleyma þeim þáttum sem við í áranna rás höfum lært

af þátttöku í atvinnulífinu; ábyrgð, skuldbindingu gagnvart því sem okkur er treyst fyrir,

þekkingu á okkur sjálfum; styrkleikum og veikleikum ásamt, ef vel hefur tekist til, aukins

sjálfstrausts, sjálfsvirðingar og trúar á eigin getu.

Nám og starf tengjast órofa böndum enda taka flestir á endanum þátt í atvinnulífinu með

einum eða öðrum hætti. Flestir byrja einnig sennilega að hugsa beint eða óbeint af einhverri

alvöru um þátttöku í atvinnulífinu á unglingsárum, ekki endilega vegna tengingar við nám sitt

heldur af öðrum og markaðsvænni ástæðum. Hvernig við aðstoðum unglinga við að gera

þátttöku í atvinnulífinu að jákvæðri uppbyggilegri reynslu hlýtur samt sem áður að skipta

máli þannig að sú þátttaka verði þeim hjálpleg við að læra að standa á eigin fótum fremur en

að upplifa þar deilur, mistök og ofríki sem aftur hefði hamlandi áhrif á nám þeirra og þroska.

Skipulagning þess hvernig börn og unglingar kynnast atvinnulífinu hlýtur að þurfa að taka

mið af þessu en ekki vera tilviljunarkennt ferli með það eitt að markmiði að fyllt sé upp í þau

störf sem aðrir vilja ekki sinna og börnin fái skotsilfur til að geta uppfyllt óskir sínar sem

neytendur. Við hljótum að vilja sjá unglinga kynnast atvinnulífinu á þann hátt að þau kynni

Page 12: Unglingar og atvinnulif

12

takmarki árekstra við skóla, börnin kynnist þeim möguleikum sem felast á vinnumarkaði og

geti lært að velja og hafna út frá þekkingu á sjálfum sér, áhuga og getu. Við þurfum að velta

fyrir okkur hvort þau störf sem unglingar sinna samhliða námi feli í sér viðeigandi áskoranir,

hvort ýtt sé undir hæfileika þeirra og hvort vinnan sé þeim hvatning til frekara náms og starfs.

Miðað við þau störf sem börn og unglingar hafa sinnt hér á landi undanfarin ár er kannski

vafasamt að ýta undir frekari þátttöku að óbreyttu. Afgreiðslustörf þar sem yfirmaður er árinu

eldri er kannski ekki sú mynd sem fræðimenn hafa dregið upp sem æskilega samþættingu

náms og starfs. Skipulögð og styðjandi leiðsögn ábyrgra fullorðinna hlýtur alltaf að vera

grunnur að atvinnuþátttöku ungs fólks sem leitt getur til jákvæðrar niðurstöðu og hvatt það til

dáða.

Fyrsta skrefið í þessa átt gæti því falist í aukinni náms- og starfsfræðslu þar sem skólakerfið

og atvinnulífið tækju höndum saman. Með því að styrkja þessi tengsl ætti að vera hægt að

auka líkurnar á því að ungt fólk skynji vinnuna sem framhald af náminu, hvoru tveggja til

hagsbóta. Þar erum við því miður stutt á veg komin, jafnvel enn styttra en fyrir hartnær hálfri

öld þegar fræðsla um nám og störf var þó viðurkennd námsgrein í íslensku skólakerfi.

Þrátt fyrir að erlendar rannsóknir á þessu sviði séu enn sem komið er af skornum skammti

verður ekki betur séð en fræðimenn séu í dag hallir undir þá skoðun að nám og vinna geti vel

samræmst hvort öðru sé vel á málum haldið og skólabörn geti í mörgum tilfellum haft

margvíslegan hag af því að sinna störfum sem þau ráða vel við. Fræðsla um slík störf ætti því

til að byrja með að vera nokkuð hættulítil.

Page 13: Unglingar og atvinnulif

13

Heimildir:

Aðalnámskrá grunnskóla (2007). Lífsleikni. Menntamálaráðuneytið.

Amalía Björnsdóttir, Baldur Kristjánsson og Börkur Hansen (2009). Tíminn eftir skólann

skiptir líka máli. Um tómstundir og frítíma nemenda í 1., 3., 6. og 9. bekk grunnskóla. Netla –

veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt 5. október 2010 af

http://netla.khi.is/greinar/2009/010/index.htm

Álfgeir Logi Kristjánsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Jón Sigfússon (2006). Ungt fólk 2006.

Menntun, menning, tómstundir og íþróttaiðkun ungmenna á Íslandi. Rannsókn meðal

nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla vorið 2006. Reykjavík: Rannsóknir og greining. Sótt 7.

október 2010 af bella.mrn.stjr.is/utgafur/ungt_folk_2006.pdf

Blustein, David. (2006). The psychology of working: A new perspective for career

development, counseling, and public policy. Mahwah, NJ: Lawrence Erlbaum.

Bourdillion, M. (2006). Children and Work. A Review of Current Literature and Debates.

Development and Change, 37(6), 1201-1226.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (1999). Reglugerð um vinnu barna og unglinga 426/1999.

Sótt 5. október 2010 af

http://www.reglugerd.is/interpro/dkm/WebGuard.nsf/b7fd33650490f8cf00256a07003476bb/

07126cdc4b575cf000256a0800322a61?OpenDocument

Erikson, E. E. (1968). Identity: Youth and crisis. New York: Norton.

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir (2010). Occupational Thinking and Its Relation to School Dropout.

Journal of Career Development. Published online 5 March.

Hannes I. Ólafsson, Björk Þorgeirsdóttir og Garðar Gíslason (2006). Vinna

framhaldsskólanema með námi. Könnun á vinnu framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu

gerð 2005. Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Kvennaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn í

Kópavogi. Sótt 7. október 2010 af www.ismennt.is/not/gardarg/Vinna.doc

Lög Evrópusambandsins (1994). On the protection of young people at work. Sótt 6. október

2010 af

http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=CELEX:31994L0033:EN:NOT

Page 14: Unglingar og atvinnulif

14

Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008.

Ríkisútvarpið (2010). Frétt 6. október: Markaðssetningu beint að börnum. Sótt 6. október

2010 af http://www.ruv.is/frett/markadsetningu-beint-ad-bornum

Sigríður Dísa Gunnarsdóttir (2006). Að stuðla að þróun starfsferils nemenda: Þáttur náms-

og starfsfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Óbirt meistararitgerð: Háskóli Íslands,

Félagsvísindadeild.

Sigurjóna Jónsdóttir (2010). Árangursmat á náms- og starfsfræðslu í starfsmenntaskóla.

Óbirt meistararitgerð: Háskóli Íslands, Félags- og mannvísindadeild.

Skýrsla nefndar menntamálaráðherra til Alþingis (2008). Skýrsla nefndar um gildi aukinnar

náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum, sem úrræðis gegn brottfalli nemenda

í framhaldsskólum og fyrir farsælu náms- og starfsvali. (Óútgefið handrit).

Twenge J. M., Campbell S. M., Hoffman B. J., Lance C. E. (2010). Generational Differences

in Work Values: Leisure and Extrinsic Values Increasing, Social and Intrinsic Values

Decreasing. Journal of Management, 36, 1117-1142.

Vinnuskóli Reykjavíkur (e.d.). Stefna Vinnuskóla Reykjavíkur. Sótt 8. október 2010 af

http://www.vinnuskoli.is/?s=6&siduID=45&men=7

Zimmer-Gembeck, Melanie J., Mortimer, Jeylan T. (2006). Adolescent Work, Vocational

Development, and Education. Review of Educational Research, 76, 537-566.

Þóra Björnsdóttir (2009). Er öll vinna barna slæm? Baráttan um barnavinnu og vestræn

áhrif á gerð alþjóðasáttmála. Óbirt BA – ritgerð: Háskóli Íslands, Félags- og

mannvísindadeild.