10
Kæru félagsmenn! Hjartanlega velkomin til þessa sameiginlega kjara- og samstöðufundar BHM, hvort sem þið takið þátt með nærveru hér í salnum eða gegnum vefstreymið. Kjarasamningar aðildarfélaga BHM á opinberum vinnumarkaði runnu út nú um mánaðamótin. Formlegar samningaviðræður við ríki, sveitarfélög og Reykjavíkurborg hafa nú staðið yfir í mánuð, að þessu sinni ganga öll BHM félögin sameiginlega til móts við alla viðsemjendur með eina einfalda kröfu – um afgerandi launaleiðréttingu. Að baki er langt tímabil stöðnunar í launum háskólamenntaðra, störf okkar fólks hafa verið verðfelld og það þarf að leiðrétta. Undanfarin ár hafa verið tími þolinmæði, ábyrgðar og úthalds. Félagsmenn BHM, millistéttin, sýndu ábyrga afstöðu í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Þeir tóku á sig kjaraskerðingar og hafa sýnt þolgæði og úthald andspænis upplausnarástandi og því síaukna starfsálagi sem fylgt hefur aðhaldsaðgerðum í opinberum rekstri. Þeir hafa tekið á sig auknar byrðar í sköttum og gjöldum og reynt á eigin skinni verðlagshækkanir á tímum tekjumissis og óvissu. Allt var þetta vegna þess að á Íslandi ríkti neyðarástand. Launastefna sú sem rekin hefur verið frá hruni og einkennist af hækkunum lægstu launa en kyrrstöðu millitekjuhópa, hefur alið af sér verðfellingu á störfum félagsmanna BHM, vanmat á þekkingu. BHM leggst gegn því að launastefna áranna eftir hrun verði fest í sessi, BHM vill ekki festa í sessi neyðarástand. BHM vill ábyrga launastefnu sem horfir til framtíðar. Alþýðusambandið lagði af stað um áramótin með samninga sem sagðir eru kveða á um 2,8% launahækkun. Kostnaður við samningana nemur þó 4,1% þegar á heildina er litið.

Þekking er framtíðin ávarp guðlaugar kristjánsdóttur formanns bhm í háskólabíó

Embed Size (px)

DESCRIPTION

Ávarp Guðlaugar Kristjánsdóttur formanns BHM á kjarafundi BHM í Háskólabíói 6. febrúar 2014.

Citation preview

Kæru félagsmenn! Hjartanlega velkomin til þessa sameiginlega kjara- og samstöðufundar

BHM, hvort sem þið takið þátt með nærveru hér í salnum eða gegnum vefstreymið.

Kjarasamningar aðildarfélaga BHM á opinberum vinnumarkaði runnu út nú um

mánaðamótin.

Formlegar samningaviðræður við ríki, sveitarfélög og Reykjavíkurborg hafa nú staðið yfir í

mánuð, að þessu sinni ganga öll BHM félögin sameiginlega til móts við alla viðsemjendur

með eina einfalda kröfu – um afgerandi launaleiðréttingu. Að baki er langt tímabil stöðnunar

í launum háskólamenntaðra, störf okkar fólks hafa verið verðfelld og það þarf að leiðrétta.

Undanfarin ár hafa verið tími þolinmæði, ábyrgðar og úthalds. Félagsmenn BHM, millistéttin,

sýndu ábyrga afstöðu í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Þeir tóku á sig kjaraskerðingar og

hafa sýnt þolgæði og úthald andspænis upplausnarástandi og því síaukna starfsálagi sem

fylgt hefur aðhaldsaðgerðum í opinberum rekstri. Þeir hafa tekið á sig auknar byrðar í

sköttum og gjöldum og reynt á eigin skinni verðlagshækkanir á tímum tekjumissis og óvissu.

Allt var þetta vegna þess að á Íslandi ríkti neyðarástand. Launastefna sú sem rekin hefur

verið frá hruni og einkennist af hækkunum lægstu launa en kyrrstöðu millitekjuhópa, hefur

alið af sér verðfellingu á störfum félagsmanna BHM, vanmat á þekkingu.

BHM leggst gegn því að launastefna áranna eftir hrun verði fest í sessi, BHM vill ekki festa í

sessi neyðarástand. BHM vill ábyrga launastefnu sem horfir til framtíðar.

Alþýðusambandið lagði af stað um áramótin með samninga sem sagðir eru kveða á um

2,8% launahækkun. Kostnaður við samningana nemur þó 4,1% þegar á heildina er litið.

BHM hefur ekki ljáð máls á því að taxtahækkun ASÍ á almennum markaði eigi að ráða för í

samningum okkar. Ekki hingað til, ekki núna og ekki héðan eftir. Rök okkar fyrir þeirri afstöðu

eru meðal annars þessi:

-fyrirmynd frá ASÍ á ekki við vegna ólíkra aðstæðna. Launataxtar hafa bein áhrif á

launaþróun einungis um fjórðungs félagsmanna ASÍ, en hafa úrslitaáhrif um þrjá fjórðu okkar

hóps. Launaskrið er staðreynd á almennum vinnumarkaði og bætist ofan á taxtahækkanir. Ef

einblínt er á samhljóða taxtahækkun er það ávísun á stöðnun hjá okkar fólki, þar sem

launaskrið hjá hinu opinbera er lítið. Launabilið milli markaða eykst ef taxtabreytingar ASÍ eru

látnar ráða. Slík niðurstaða er óásættanleg.

-þó svo við vildum nota fyrirmynd ASÍ, þá værum við ekki að tala um 2,8% vegna þess að

kostnaðaráhrif samninganna þeirra eru metin upp á 4,1%. Hvers vegna ættum við að yfirfæra

hluta launaþróunarinnar en ekki heild?

-stefnan sem teiknuð er upp hjá ASÍ, áherslan á lægstu laun, vinnur gegn markmiði BHM og

viðsemjenda okkar um að laun taki mið af menntun, ábyrgð og umbun fyrir viðbótarframlag

starfsmanna. Hið opinbera þarf að efla samkeppnishæfni sína um ungt og menntað fólk,

leiðin til þess er ekki að verðfella þekkingu. BHM tekur ekki þátt í slíku.

-vegna launaþróunar undanfarinna ára og mismununar milli hópa á vinnumarkaði, gæti BHM

margfaldað 2,8 prósentin ansi oft án þess að gera annað en taka upp slakka. Ef gliðnunin milli

okkar og annarra hópa yrði fyrst bætt, væri kannski fótur fyrir því að ræða svipaða hækkun

og ASÍ fær núna, því til viðbótar. En 2,8% ein og sér gera ekkert til að laga stöðuna, þvert á

móti myndum við – og viðsemjendur okkar – grafa okkur enn dýpra með slíku.

BHM leggur áherslu á sértæka lausn í kjaramálum háskólamenntaðra. Vegna þess að BHM

vill ábyrga launastefnu sem horfir til framtíðar.

Aðilar vinnumarkaðar, BHM þar á meðal, gáfu í fyrra út sameiginlega skýrslu þar sem

launaþróun í landinu er skoðuð. Niðurstöður hennar sýna svo ekki verður um villst, að

áherslan á lægstu laun hefur kyrrsett launaþróun háskólamenntaðra. Þar er um að ræða

óæskilega aukaverkun af neyðarráðstöfunum áranna eftir hrun, aukaverkun sem nú þarf að

leiðrétta.

Laun BHM hjá ríkinu hreyfðust til að mynda 8,6% minna en laun ASÍ á viðmiðunartímanum.

Það er staðreynd, sem hér skal ekki gagnrýnd eða mærð. Á hitt bendi ég þó að verðfelling

starfa háskólamenntaðra upp undir 10% er óheillaþróun. Sérstaklega þegar horft er til

mikilvægis þekkingarstarfa í nútímanum, í þeim veruleika sem við okkur blasir.

BHM krefst þess að þessi munur verði leiðréttur og gangskör gerð í því að færa mat á

þekkingu til betri vegar. Vegna þess að BHM vill ábyrga launastefnu sem horfir til framtíðar.

Ísland hefur lengi búið við efnahagslegan óstöðugleika, ekki bara frá hruni. Tímabil þenslu og

samdráttar skiptast á og sveiflurnar eru oft stórar.

Nú er horft til hinna Norðurlandanna í leit að fyrirmynd sem leitt geti til stöðugleika og því

gjarnan flaggað að launaþróun sé afar jöfn og hæg í þessum nágrannalöndum okkar en stuðli

þó að betri kaupmætti.

Grundvallaratriðið sem horfa þarf á í því samhengi eru undirstöður efnahagslífsins. Hin

löndin búa við opið hagkerfi, við erum í höftum. Gjaldmiðillinn er stöðugur þar en afar

óáreiðanlegur hér.

Sveiflur í íslenskum efnahag fæðast ekki í launaumslögum almennings. Dæmið er mun

flóknara en svo.

Lítum samt aðeins á launþegaþáttinn.

Á íslenskum vinnumarkaði eru um 200 þúsund manns. Þar af eru 10 þúsund í BHM, 8 þúsund

þeirra teljast opinberir starfsmenn. 4600 þeirra vinna hjá ríkinu.

Launafrysting 8000 einstaklinga – fjögurra prósenta af starfandi fólki – hefur ekki hamið

verðbólgu síðustu 6 ára. Né heldur mun launaleiðrétting 8000 einstaklinga til jafns við

launaþróun í landinu almennt síðustu ár setja hér allt á hliðina eða valda þenslu.

Launafrysting BHM mun því ekki tryggja hér stöðugleika, en hún myndi aftur á móti stuðla að

stöðnun.

BHM áréttar að Ísland má ekki við frekari stöðnun í samkeppnishæfni um menntað vinnuafl.

BHM vill ábyrga launastefnu sem horfir til framtíðar.

Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum fjallað um störf og laun ríkisstarfsmanna, ég

mun nú lýsa nokkrum ábendingum úr skýrslu embættisins um mannauðsmál ríkisins frá

árinu 2011.

Ríkisendurskoðun leggur til að frammistaða sé metin með reglubundnum hætti. Hún bendir

á að meðalaldur ríkisstarfsmanna hefur hækkað mikið og áréttar mikilvægi þess að ríkið

komist að því hvernig það geti laðað til sín ungt og hæft starfsfólk og haldið því . Bent er á að

ríkisstofnanir eigi að umbuna starfsmönnum sem skara framúr í starfi og það gagnrýnt að

minna tillit sé tekið til frammistöðu í starfi við launasetningu hér en í nokkru öðru landi

(samkvæmt könnun OECD frá 2005).

Ríkisendurskoðun beinir því til stjórnvalda að þau meti hvaða áhrif viðvarandi launamunur á

milli vinnumarkaða hafi á samkeppnisstöðu ríkisins um hæft vinnuafl. Skýrslan lýsir áhyggjum

af óeðlilega miklu vinnuálagi sem leitt geti til aukningar veikindadaga og starfsmannaveltu.

Slíkt auki kostnað ríkisins og dragi úr afköstum.

Í ábendingum ríkisendurskoðunar segir: „langtímamarkmið ríkisins hlýtur að vera að draga úr

þeim launamun sem nú er á milli vinnumarkaða...“ (þetta var árið 2011).

Loks er bent á þá staðreynd að „Mannauður ríkisins byggir í sífellt meira mæli á sérhæfðu og

menntuðu fólki...“

Merkilegt nokk þá má finna flest þessi orð í markmiðslýsingum kjarasamninga BHM. Erfiðara

virðist reynast að fylgja þeim eftir.

BHM vill verða að liði í því verkefni að auka samkeppnishæfni hins opinbera um hæft og vel

menntað vinnuafl, enda er það yfirlýst markmið beggja aðila. Vegna þess að BHM vill ábyrga

launastefnu sem horfir til framtíðar.

Upp er runnið árið 2014. Fyrir liggur að aukin hagsæld og blómlegur vinnumarkaður mun á

Íslandi – jafnt sem annars staðar – í síauknum mæli byggja á þekkingu, rækt hennar, nýtingu

og útbreiðslu.

Frekari vöxtur atvinnugreina sem reiða sig á nýtingu náttúruauðlinda er ólíklegur, nema til

komi aukin þekking sem skapar nýjar leiðir. Sá hluti vinnumarkaðarins sem byggir á þekkingu,

getur hins vegar vaxið til muna, en sá vöxtur skilar sér til þeirra svæða sem leggja rækt við

rannsóknir, þróun, nýsköpun og menntun.

Ísland þarf á öllum þekkingarstörfum að halda – og þeim þarf jafnframt að fjölga – ef hér á

að verða vöxtur til framtíðar litið.

Framþróun í atvinnulífinu krefst þess að markvisst verði stefnt að uppbyggingu í rannsóknum

og nýsköpun. Vitundarvakningar er þörf til að tengja stefnumótun og ákvarðanatöku í

atvinnumálum – og á vettvangi stjórnmálanna – við nútímann, við árið 2014, þegar framtíðin

hleypur í fangið á okkur.

Er Ísland tilbúið í þær áskoranir sem uppbygging þekkingarstarfa og efling nýsköpunar hafa í

för með sér? Er hér markvisst unnið á grunni slíkrar framtíðarsýnar? Ætlum við, Íslendingar,

að halda í við nútímann?

Atvinnustefna sem leiðir af sér brottflutning háskólamenntaðra til starfa erlendis er ekki tæk

til að sækja fram árið 2014.

Allir kjarasamningar ættu að taka mið af verðgildi og mikilvægi þekkingar.

BHM hafnar atvinnustefnu sem vanmetur þekkingu og grefur undan starfsvettvangi fólks

með háskólamenntun. Vegna þess að BHM vill ábyrga launastefnu sem horfir til framtíðar.

Ísland er eyja og heimurinn er stór.

Heimurinn er stór og í honum eru margar eyjur og meginlönd.

Nútíminn snertir alla þessa staði. Um leið og Íslendingar ná árangri í sköpun starfa, nýtingu

þekkingar, eflingu nýsköpunar, megum við vera viss um að restin af heiminum er líka á fullu.

Heimurinn er keppnisvöllur.

Og hver vill tapa í keppi? Ekki Íslendingar, þótt Ísland sé eyja.

Það er staðreynd að hin Norðurlöndin eru að stinga okkur rækilega af hvað varðar launakjör

háskólamenntaðra. Við vorum öftust og erum enn að dragast afturúr. Það gengur ekki, þessu

þarf að breyta.

BHM krefst þess að Ísland herði sig í keppninni um menntun, þekkingu, nýsköpun, verðmæt

störf og stækkun þjóðarkökunnar. BHM krefst þess að bættar vinnumarkaðsaðstæður

háskólamenntaðra verði settar í forgang og að laun þeirra verði leiðrétt eftir afturför

nýliðinna ára. Vegna þess að BHM vill ábyrga launastefnu sem horfir til framtíðar.

Guð blessi Ísland.

Þessi fleygu orð féllu í upphafi hrunsins árið 2008. Frá sjónarhorni BHM hefur tíminn síðan þá

einkennst af áhyggjum af því að ungt vel menntað fólk, sem og fólk með reynslu, kjósi að

segja bless við Ísland.

Það er verulegt áhyggjuefni og þótt stundum sé gott að geta hlegið, er undirtónninn mjög

svo alvarlegur.

Þekking kostar. Það vita allir sem hafa fjárfest í henni, hvort sem er á formi menntunar eða

reynslu. Gjaldið sem við greiðum er stundum í beinhörðum peningum, greiðsla fyrir skólavist

og námsgögn, launatap, lántaka, afborganir. Stundum er um að ræða tímann sem við

leggjum fram sem greiðslu og öll vitum við að menntun lýkur aldrei hjá þeim sem byggir starf

sitt á grunni hennar. Maður þarf nefnilega að halda sér við, fylgjast með tímanum.

Því ætti að vera sjálfsagt mál að borga vel fyrir þekkingu.

Hægt er að leika sér að því að setja verðmiða á háskólamenntaða einstaklinga. Gróflega

áætlað fjárfestir íslenskt samfélag um 25 milljónum í menntun einstaklings að fyrstu

háskólagráðu. Þá eru öll skólastig talin með. Skatttekjur af hinum dæmigerða háskólamanni á

vinnumarkaði jafnast á við um 125 milljónir. Á starfsævinni greiðir hann semsagt menntunina

fimmfalt til baka.

Þessar staðreyndir, þessa kostnaðarvitund, er okkur hollt að hafa í huga þegar rætt er um

atgervisflótta ungs fólks með menntun, út fyrir landsteinana. Ef íslenskur vinnumarkaður

verður undir í samkeppni um þessa starfskrafta, tapar samfélagið 150 milljónum fyrir hvern

og einn brottfluttan.

100 brottfluttir eru þá fimmtán milljarðar. Það er eitthvað ofan á brauð, ekki satt?

Mannauður er auðlind. Útflutningur á honum sem er alfarið á okkar kostnað, með margföldu

tapi, er sorglegt framtak. Þetta er ekki sú tegund af fullunnum afurðum sem Ísland ætti að

vera að flytja út. Og borga með.

Lögum þetta. Verum ábyrg. Horfum til framtíðar.

Tölum aðeins um forsendubrest.

Mig langar að ræða um námslán og samhengi þeirra við laun og námskostnað.

Ímyndum okkur háskólamenntaðan ríkisstarfsmann. Segjum að hann hafi sótt sér menntun í

ríkisskóla, tekið námslán hjá ríkinu og síðan sótt sér starf hjá ríkinu í samræmi við menntun

sína.

Horfum svo á þá staðreynd að þessi einstaklingur, ef hann er tiltölulega ungur núna, á

líklegast eftir að greiða af námslánum sínum allt til dauðadags. Lánasjóður íslenskra

námsmanna mun fylgja honum inn á elliárin, lífeyrisárin og ævina á enda. Lánasjóður unga

fólksins verður að málefni aldraðra! Okkur endist með öðrum orðum ekki starfsævin til að

greiða upp lánið sem fjármagnaði tilveruna á námsárunum.

Er ekki eitthvað bogið við þetta? Ættu ekki launin að nægja til að kljúfa námslánin?

Er ekki annað forsendubrestur?

Eins og endurgreiðslum er háttað í dag, miðast greiðsluþyngd við upp undir ein mánaðarlaun

á ári. Það tekur í pyngjuna að upp undir ein mánaðarlaun fari árlega í endurgreiðslur af

námsskuldum.

BHM krefst þess að endurgreiðslubyrði vegna námslána verði tekin til endurskoðunar og

minnkuð, enda eru námslán hluti af verðtryggðum skuldum heimila.

Félagsmenn BHM starfa á öllum sviðum vinnumarkaðarins. Yfirstandandi kjaraviðræður

varða þá sem tilheyra opinbera geiranum.

Almenningur á Íslandi vill búa við opinbera þjónustu í fremstu röð, trygga umsjón og öflugt

öryggisnet. Þegar kemur að því að fjármagna þá þjónustu verður umræðan oft neikvæð, sem

er skrýtið, þar sem fólkið á bak við þjónustuna er okkur afar dýrmætt.

Ég fagna því að hafa verið umvafin opinberum starfsmönnum allt frá fæðingu. Opinberir

starfsmenn taka á móti okkur í heiminn, skrá nafnið okkar, fylgjast með heilsufarinu og gæta

okkar í hvívetna. Þeir passa okkur, kenna okkur, annast okkur í veikindum eða þegar

erfiðleikar steðja að, fylgjast með veðrinu, hafa gætur á náttúrunni og varðveita

sameiginlegan arf okkar á hverju því formi sem tjáir að nefna. Þeir hafa svæft okkur, vakið

okkur, gegnumlýst, rannsakað, þjálfað, nært, staðið vörð um lög og rétt. Kennt okkur að lesa

ljóð, spila á hljóðfæri, fara eftir umferðarreglum, sýnt okkur leikrit, spilað tónlist. Passað upp

á gögn, haldið skikk á tölum, talið fiskana í sjónum og grösin á heiðum, reiknað laun,

innheimt skatta, borgað laun. Þeir stuðla að því að við séum öll virkir þjóðfélagsþegnar,

eflum andlegt og líkamlegt atgervi og fótum okkur í lífsins ólgusjó. Þeir styðja okkur frá vöggu

til grafar. Hvað er hægt að biðja um meira?

Mér dettur eitt í hug. Það er hægt að biðja um að framlag þeirra sé metið að verðleikum.

Þekking þeirra sé launuð. Menntun þeirra sé viðurkennd.

Það er krafa BHM. Vegna þess að BHM vill ábyrga launastefnu sem horfir til framtíðar.

Nú langar mig að fá hingað upp á sviðið til mín fulltrúa þeirra félaga sem mynda

samninganefndir BHM og hafa mótað þær kröfur sem hér hefur verið lýst. Ágætu formenn,

eða staðgenglar þeirra, ég er að tala við ykkur.

Þetta eru fulltrúar frá dýralæknum, geislafræðingum, háskólakennurum (í Reykjavík og á

Akureyri), náttúrufræðingum, lífeindafræðingum, prófessorum, sjúkraþjálfurum,

háskólamenntuðum starfsmönnum stjórnarráðsins, félagsvísindamönnum,

hljómlistarmönnum, leikurum, leikstjórum, öðrum sérfræðingum/Fræðagarði, iðjuþjálfum,

félagsráðgjöfum, viðskiptafræðingum og hagfræðingum, ljósmæðrum, sálfræðingum,

bókasafns- og upplýsingafræðingum, matvæla- og næringarfræðingum, lögfræðingum og

þroskaþjálfum.

Það er sameiginleg tillaga okkar sem hér stöndum að fundurinn samþykki eftirfarandi

ályktun:

„Sameiginlegur kjarafundur BHM haldinn í Háskólabíói þann 6. febrúar 2014 lýsir fullum

stuðningi við áherslur samninganefnda BHM í yfirstandandi kjaraviðræðum.

Fundurinn hvetur viðsemjendur til þess að virða og meta menntun og leiðrétta þá rýrnun

sem orðið hefur á kjörum háskólamenntaðra undanfarin ár.

Fundurinn beinir því til stjórnvalda að setja þekkingu í forgang á íslenskum vinnumarkaði,

leiðrétta laun félagsmanna BHM og þannig stuðla að hagsæld til framtíðar.“

---

Kæru félagsmenn, hér hefur verið farið yfir stöðu kjaramála og yfirstandandi kjaraviðræðna

BHM við viðsemjendur á opinberum vinnumarkaði.

Ég vil fyrir hönd BHM þakka ykkur kærlega fyrir komuna hingað, sem og nærveruna yfir netið

og segi að lokum:

Þekking er framtíðin – og framtíðin er núna!