22
NEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í 10. bekk. Flestir hefja þó frönskunám ekki fyrr en í framhaldsskóla. Nemendur velja þá á milli nokkurra tungumála sem þeir læra sem 3. mál. Í áfangakerfi framhaldsskóla eiga nemendur að ljúka 4 áföngum í 3. máli til stúdentsprófs eða 12 einingum eins og kerfið er í dag en það gæti breyst með nýjum framhaldsskólalögum. Þegar nemendur hefja frönskunám eru þeir því almennt orðnir 16-17 ára gamlir. Þeir hafa aftur á móti lært ensku síðan snemma í grunnskóla. Þar sem aldur hefur áhrif á máltileinkun skv. fræðimönnum (Auður Hauksdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir, 2007) þá er ljóst að nemendur hafa talsvert forskot í ensku þar sem þeir byrja að læra það tungumál mun fyrr en 3. mál sitt. Enskt máláreiti er líka miklu meira í íslensku umhverfi en franskt sem hefur líka áhrif á máltileinkun nemenda í frönsku. Nemendahópurinn sem fyrir valinu varð með þetta bókmenntaverkefni er franska 403 í framhaldsskóla með áfangakerfi. Í áfangalýsingu frönsku 403 er í Aðalnámskrá tiltekið að lokið sé að mestu leyti við að fara yfir aðalatriði franskrar málfræði með þessum 1

notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

Embed Size (px)

Citation preview

Page 1: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

NEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL.Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í 10. bekk. Flestir hefja þó frönskunám ekki fyrr en í framhaldsskóla. Nemendur velja þá á milli nokkurra tungumála sem þeir læra sem 3. mál. Í áfangakerfi framhaldsskóla eiga nemendur að ljúka 4 áföngum í 3. máli til stúdentsprófs eða 12 einingum eins og kerfið er í dag en það gæti breyst með nýjum framhaldsskólalögum. Þegar nemendur hefja frönskunám eru þeir því almennt orðnir 16-17 ára gamlir. Þeir hafa aftur á móti lært ensku síðan snemma í grunnskóla. Þar sem aldur hefur áhrif á máltileinkun skv. fræðimönnum (Auður Hauksdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir, 2007) þá er ljóst að nemendur hafa talsvert forskot í ensku þar sem þeir byrja að læra það tungumál mun fyrr en 3. mál sitt.Enskt máláreiti er líka miklu meira í íslensku umhverfi en franskt sem hefur líka áhrif á máltileinkun nemenda í frönsku. Nemendahópurinn sem fyrir valinu varð með þetta bókmenntaverkefni er franska 403 í framhaldsskóla með áfangakerfi. Í áfangalýsingu frönsku 403 er í Aðalnámskrá tiltekið að lokið sé að mestu leyti við að fara yfir aðalatriði franskrar málfræði með þessum áfanga enda er þessi áfangi lokaáfangi þeirra nemenda sem velja frönsku sem 3. mál. Nemendur eiga því að ráða við að fjalla um og vinna síðan verkefni með tiltölulega stutt og einföld ljóð eins og það sem valið var sem viðfangsefni þessa verkefnis.Í Aðalnámskrá er eitt af áfangamarkmiðum frönsku 403 að nemandi geti m.a. lesið stutta bókmenntatexta og að nemandi „... geti náð aðalatriðum úr samfelldu ritmáli um þekkt efni bæði úr nytjatextum og bókmenntatextum...“ (Aðalnámskrá, 1999:120). Að kenna frönsku 403 leggur því nokkrar skyldur á herðar kennara varðandi menningu franskrar tungu. Hvaða efni á hann að velja til að kynna fyrir nemendum ?Í dag er mun auðveldara að finna áhugavert menningarefni en var fyrir 20 árum þegar eyða þurfti óhemju tíma á bókasöfnum að leita að efni. Internetið hefur upp á að bjóða gífurlegt magn efnis þannig að kennarar geta sótt þangað margs konar efni, og kynnt fyrir nemendum, þ. á. m..

1

Page 2: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

tónlist og texta af ýmsu tagi, en tónlist er jú hluti af menningu hverrar þjóðar. Heppilegt er t.d. efni eins og upplestur á skáldsögum og smásögum og flutningur á sönglögum og ljóðum o.fl. þar sem nemendur geta hlustað og jafnvel horft samtímis á flytjendurna í skjávarpa eða sjónvarpi. Hlustunarverkefni henta t.d. nemendum með dyslexíu mjög vel þar sem þeir eiga margir erfitt með að lesa og/eða skrifa langan texta.En kennari þarf líka að vera gagnrýninn á viðfangsefnin, ekki er allt gull sem glóir. Kennari þarf auðvitað fyrst að taka tillit til krafna Aðalnámskrár en síðan hefur hann nokkuð frjálsar hendur til að velja efni sem hjálpar nemendum að ná markmiðum þeim sem Aðalnámskrá telur upp. En að velja áhugavert efni er ekki eins einfalt og það hljómar. Það þarf að taka tillit til margra hluta. T.d. „Bæta þau raunverulega einhverju við þekkingu nemenda? (Ingvar Sigurgeirsson, 1999 (a): 31). Höfðar efnið til nemenda ? Finnst þeim það áhugavert, en það skiptir miklu máli því „... nemendur eru alltaf tilbúnir að vinna ef þetta er eitthvað sem þeim þykir áhugavert“. (Hafdís Ingvarsdóttir, 2004:480). Kennurum er því oft vandi á höndum með að velja efni. En þurfa kennarar alltaf að velja sjálfir allt kennsluefnið ? Nei, það þarf ekki að vera þannig. Í dag eru nemendur vanir að afla sér upplýsinga um alla skapaða hluti á Internetinu og því er hægur vandi að fá þá í lið með sér í því að afla efnis. Það myndi létta aðeins á kennaranum og efnið yrði þá nær áhugasviði nemenda, og yrði jafnvel og vonandi til þess að nemendur kynntust enn fjölbreyttara efni en ella. Gleymum því ekki að nemendur í grunn- og framhaldsskólum í dag hafa alist upp með tölvum frá blautu barnsbeini og læra að nota þær jafnvel áður en þeir læra að lesa !Það skiptir einnig máli að með því að fá nemendum það hlutverk að afla viðfangsefna er verið að ýta undir frumkvæði nemenda og ábyrgð á eigin námi sem mikil áhersla er lögð á í dag. (Auður Hauksdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir, 2007). Einnig má rökstyða þessa leið til efnisöflunar með vísun til fjölgreindarkenningar Howard Gardner, þar sem efnið sem nemendur finna væri þá frekar tengt þeirra áhugasviðum og mögulega nær þeirra sterkustu greindum (Armstrong, 2001). Nemendur gætu komið með efni sem kennari myndi jafnvel ekki hafa hugmyndaflug til að útvega sjálfur. Nemendur eru jú alveg ótrúlega hugmyndaríkir.Það er svo kennarans að meta kennslufræðilega það efni sem nemendurnir afla. Hvort það hentar áfanganum, hvort það uppfyllir

2

Page 3: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

kröfur m.t.t. Aðalmarkmiða Aðalnámskrár og markmiða skólanámskrár og hvernig hann telur að nemendurnir fái sem mest út úr efninu námslega séð.

Tilbúnir textar í kennslubókum eru oft frekar óspennandi að mati nemenda. (Auður Hauksdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir, 2007). Og jafnvel að mati kennara líka, textarnir verða fljótt leiðigjarnir og úreldast má segja á tiltölulega stuttum tíma margir hverjir. Rauntextar eru áhugaverðari en tilbúnir textar og verka hvetjandi á nemendur (Brown, 2001). Kennslubókartextar eru líka nemendamiðaðir, þ.e. samdir með nemendur á ákveðnu getustigi í huga. Mikilvægt er að kynna fyrir nemendum sem fjölbreyttasta rauntexta (e. authentic texts) í tungumálanámi þar með talda bókmenntatexta, en að kenna menningu tungumáls er hluti af kennslu tungumáls sbr. Lokamarkmið Aðalnámskrár eftir 12 eininga nám í frönsku: Nemandi “... þekki fjölbreytilega menningu Frakklands og meðal frönskumælandi þjóða...“. (Aðalnámskrá, 1999:111).

Í þessu verkefni var ákveðið að kynna fyrir nemendum dæmi um franska tónlist. Fyrir valinu varð lag sungið af einni dáðustu söngkonu sem Frakkar hafa átt, Édith Piaf. Lagið er eitt af hennar þekktustu lögum og heitir Non, je ne regrette rien. Höfundur lagsins er Charles Dumont og ljóðið er eftir Michel Vaucaire, en þeir sömdu mörg lög sem Édith Piaf flutti. Þetta er því rauntexti (e. authentic text).

Texti ljóðsins er einfaldur og nemendur í 403 sem eru flestir 17-18 ára gamlir ættu að ráða nokkuð vel við að skilja það þó það sé aðeins fyrir ofan getustig þeirra, sem ílag (e. input) þarf að vera (Brown, 2001).

Megintilgangurinn með því að velja þetta ljóð er að kynna fyrir nemendum dæmi um franska ljóðlist og einnig að kynna fyrir nemendum mjög þekkta franska söngkonu á 20. öld, en í áfangalýsingu fyrir frönsku 403 er einmitt frægt fólk meðal viðfangsefna, og víst er að Édith Piaf var og er ennþá, en hún lést 1963, mjög þekkt meðal frönskumælandi fólks og víðar. Kvikmynd var gerð um ævi hennar árið 2007 sem fékk afbragðs dóma.

3

Page 4: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

Kennslufræðilegt markmið er að nota ljóðið sem undirstöðu fyrir margs konar verkefni með mikla áherslu á munnlega tjáningu, til að nemendur þjálfist í að nota markmálið á sem fjölbreyttastan hátt og auki þannig færni sína í markmálinu. Ljóð geta verið heppileg sem kennsluefni þar sem þau eru oft margræð og bjóða upp á margar túlkanir lesenda/áheyrenda. Hlutir eru ekki sagðir beint út, heldur ýmislegt gefið í skyn þannig að nemendur geta túlkað orð og setningar á fleiri en eina vegu (Lazar, 1993). Ljóð geta einnig verið tilfinningarík og nemendur geta mögulega tengt sínar eigin tilfinningar við texta ljóðs, ef það höfðar til þeirra. Þannig geta bókmenntir opnað augu nemenda fyrir fjölbreyttum tjáningarmáta tungumáls, hvað margt er hægt að tjá með orðum á svo marga vegu.

Ljóð sem valið var er mátulega langt til að hægt sé að vinna með það á ýmsan hátt í einum löngum tíma, þ.e. 90 mínútna tíma og halda síðan áfram með verkefni því tengdum í næstu 2 tímum þannig að vika er í raun tekin undir bókmenntakennslu og verkefni henni tengd. Talsverður hluti vinnu nemenda með ljóðið er unninn í pörum eða hópum þ.e. með samvinnunámi (e. cooperative learning). Samvinnunám er nám sem „...felst í því að láta nemendur vinna í litlum hópum að sameiginlegu markmiði“. (Armstrong, 2001:73)Margir kostir eru við það að nemendur vinni saman í hópum, svo sem að þeir læri meira þar sem þeir skiptast á skoðunum, læra hver af öðrum. Síðan geta lausnir fundnar í sameiningu verið betri en þær sem einstaklingar koma með. Einnig getur samvinna ýtt undir vinnugleði, samkennd og áhuga nemenda á efninu sem verið er að fjalla um. Síðast en ekki síst þroskar það nemendur að vinna saman, það að þurfa að hlusta á aðra og taka tillit til skoðana annarra eykur félagslega færni þeirra. (Ingvar Sigurgeirsson, 1999 (b). Hópvinna eykur sem sagt færni nemenda ekki bara í markmálinu heldur einnig færni þeirra sem einstaklinga. „Rannsóknir... þykja benda til þess að samvinnunámsaðferðir hafi mjög jákvæð áhrif á námsárangur, félagsleg samskipti og viðhorf.“ (Ingvar Sigurgeirsson, 1999(b):138).

Þetta ljóð er valið þar sem það er eitt þekktasta lagið sem Édith Piaf söng. Édith Piaf er enn goðsögn í Frakklandi og nemendum gæti þótt skrautlegt

4

Page 5: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

líf hennar, þó ekki langt væri, áhugavert. Unglingar á þessum aldri eru oft mjög uppteknir af frægu fólki og þennan áhuga er mögulega hægt að nýta sem hvata til að fræðast enn frekar um Édith Piaf og hennar merkilega feril eða um aðra franska listamenn.

SKIPULAG KENNSLUSTUNDARINNAR.

Kennslustundin, 90 mínútur er skipulögð þannig:1. Fyrst er kynnt franska orðið regretter sem kveikja, og rætt á

markmálinu um orðið og orð því tengdu, samheitum, andheitum, tengingu við ástina o.fl. og endað með orðarós á töflu sem nemendur teikna upp. (5-10 mínútur). Með þessu er vonandi vakinn áhugi nemenda og forvitni á efninu og þeir fá tækifæri til að tjá sig á markmálinu ásamt smávegis æfingu í ritun með því að skrifa orð í orðarós á töflu. Orðarósin er síðan geymd á töflunni til að nota síðar í kennslunni.

2. Næst er lagið spilað þannig að nemendur hlusta án þess að hafa texta. (3 mínútur). Hlustun.

3. Nemendum sagt aðeins frá Édith Piaf, hlutverki hennar í franskri menningu, á hvaða tíma hún lifði o.fl.Nemendur spurðir út úr ljóðinu á markmálinu, til að kanna skilning á orðaforða og efni ljóðsins. Aðleiðsla notuð til að nemendur átti sig á þeim orðum sem þeir ekki skilja. Umræður á markmálinu um ljóðið, álit nemenda á ljóðinu, leiðinlegt/skemmtilegt o.s.frv.Einnig er útskýrður fyrir nemendum munurinn á rauntexta og tilbúnum „nemendamatreiddum“ texta. Munnleg tjáning. (10 mínútur)

4. Næst fá nemendur ljóðið á blaði og fá tækifæri til að lesa það yfir um leið og ljóðið er spilað aftur fyrir þá. Þeir geta þannig hlustað og lesið samtímis sem eykur tilfinningu þeirra fyrir framburðarhljóðum markmálsins. Hlustun og lestur. (5 mínútur)

5. Stutt málfræðiupprifjun, neitun og þátíð, nemendur spurðir um þessi atriði sem koma fyrir í ljóðinu. (5 mínútur)

6. Fullyrðingaspurningar, sýndar á skjávarpa, rétt/rangt spurningar. Nemendur spurðir beint þannig að hægt er að meta hvort nemendur hafi skilið textann. Lestur og munnleg tjáning. (10 mínútur)

5

Page 6: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

7. Þemaverkefni um ljóðið. Nemendur vinna í pörum. Verkefnið felst í því að semja 6 lína framhald á ljóðinu. Þeir giska þannig á mögulegt framhald ljóðsins (Collier & Slater, 1987) Nemendur hafa ljóðið á blaði hjá sér. Nemendur lesa síðan texta sína fyrir samnemendur sína og kennara. (25 mínútur)Nemendur fá þarna tækifæri til að spreyta sig í ritun við að semja stuttan texta á markmálinu. Nemendur vinna saman 2 og 2 og geta þannig nýtt sér þekkingu hvors annars til að ná sem bestum árangri. Svona nokkuð frjáls verkefni geta oft leitt til skemmtilegra og skondinna afurða hjá nemendum.

8. Stórt verkefni. Nemendur fá síðan í lok tímans kynningu á og byrja aðeins að ræða og velta fyrir sér verkefni sem þeir vinna í hópum í næsta tíma sem er 60 mínútur. Þeir eiga svo að kynna þessi verkefni fyrir bekkjarfélögum sínum í 3. og síðasta tíma vikunnar sem einnig er 60 mínútur. Í þessu verkefni reynir á alla færniþætti, þ.e. lestur við að afla heimilda á Internetinu, ritun þegar verkefnið er unnið og sett upp, tjáningu þegar verkefnið er flutt og hlustun þegar hlustað er á verkefni samnemendanna. (Kynning kennara á verkefninu tekur um 10 mínútur.)

6

Page 7: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

KENNSLUSTUNDIN - FRAMKVÆMD

Kveikja: Byrjað er á að setja upp á skjávarpa franska orðið regretter (í. að sjá eftir) fyrir nemendur. Til að vekja forvitni nemenda og vonandi áhuga.Nemendur hvattir til að ræða á markmálinu um sögnina regretter. Reynt að fá sem flestar hugmyndir á loft, sjá nemendur eftir einhverju sem þeir hafa gert/ekki gert? Hætt í íþróttum/tónlistarnámi, sögð/ósögð orð, ástvinamissir, ástarsorg, ýta undir umræður um ástina, hugmyndir þeirra um ást. Orðarós mynduð og teiknuð af nemendum á töfluna, orð sem hægt er að tengja við frönsku sögnina regretter skrifuð í kringum orðið regretter. Reynt að fá andheiti og samheiti orðanna upp í umræðunni, og þau skrifuð á töfluna. Orðarósin er síðan geymd til frekari notkunar síðar í tímanum.

Síðan er lagið spilað fyrir nemendur, sótt á slóðina http://www.youtube.com/watch?v=kFRuLFR91e4Þar syngur Édith Piaf lagið, ein á sviði, með píanóundirleikara. Þetta er upptaka frá 1961, 2 árum áður en hún lést.

Nemendur hlusta á lagið og horfa á upptökuna af Édith Piaf án þess að hafa textann fyrir framan sig, þannig að þeir einbeiti sér alfarið að hlustuninni.

Eftir að laginu lýkur eru nemendur spurðir á markmálinu út í texta ljóðsins, hvort þeir hafi skilið hann, og hvað þeim finnst um hann. Ef einhver orð koma fyrir í textanum er reynt með aðleiðsluaðferð að láta nemendur átta sig á merkingu orðanna, t.d. með því að koma með samheiti eða benda á stofn orðanna eða jafnvel tengingu við ensku, t.d. orðið payé.Kennari ræðir muninn á bókmenntatexta og t.d. texta í kennslubók sem búinn er til sérstaklega fyrir nemendur og mikilvægi þess að þeir kynnist sem flestum rauntextum á markmálinu.Nemendum sagt aðeins frá Édith Piaf, lífi þessarar merku söngkonu sem Frakkar dá mikið enn í dag, 46 árum eftir að hún lést.

Síðan er ljóðinu dreift til nemenda á blöðum þannig að þeir geti lesið það frá orði til orðs og spurt ef eitthvað er ennþá óskýrt.

7

Page 8: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

Lagið er síðan spilað aftur fyrir nemendur þannig að þeir geti lesið ljóðið og hlustað á lagið sungið samtímis.

Þá er aðeins farið í 2 málfræðiatriði í ljóðinu, kennarinn spyr nemendur um neitunina, hvar hana sé að finna í ljóðinu. Einnig spyr kennari nemendur um samsetta þátíð (f. passé composé) sem kemur fyrir og biður nemendur um útskýringar á þeirri tíð, af hverju er hún notuð þarna en ekki einföld þátíð (f. imparfait). Þetta er stutt upprifjun á málfræðiatriðum sem nemendur hafa kynnst í fyrri áföngum. Kannski óþörf en þar sem þetta er lokaáfangi í málfræði þá þarf að rifja upp helstu atriði öðru hvoru og það að fara í slíka upprifjun hér verður kannski enn frekar til þess að góður skilningur náist á ljóðinu sem er mikilvægt til að nemendur tileinki sér mest af efninu, inntaka sé sem mest (e. intake).

Næst varpar kennari nokkrum fullyrðingaspurningum á markmálinu, sömdum upp úr orðaforða ljóðsins, á skjávarpann, sem nemendur svara munnlega einn í einu, þ.e. rétt/rangt spurningum.Stutt æfing og auðveld, æfir nemendur bæði í lestri og að tjá sig á markmálinu. Æfingar þurfa ekki alltaf að vera erfiðar. Nemendur fá aukið sjálfstraust ef þeir fá auðveldar æfingar inn á milli sem þeir þurfa lítið að hafa fyrir. Með þessu móti getur kennari einnig metið hvort skilningur sé til staðar á orðaforða ljóðsins.

Næsta verkefni er svo þemaverkefni sem nemendur vinna í pörum. Nemendur eru með ljóðið á blaði og eiga að semja 6 línur til viðbótar við ljóðið frá eigin brjósti, þ.e. reyni að giska á hvernig ímyndað framhald ljóðsins gæti litið út eða hvernig nemendum finnst að ljóðið gæti þróast út í. Þemað er ástin. Hvernig finnst nemendum hún birtast í ljóðinu og hvernig myndu þeir halda að ástin kæmi við sögu í mögulegu framhaldi ljóðsins?Nemendur hafa sem bjargir ljóðið sjálft og orðarós sem búin var til í kringum orðið regretter á kennslutöfluna í upphafi tímans. Orðarósin er ennþá töflunni og nemendur geta þannig nýtt sér þau orð sem þar voru skrifuð upp.

8

Page 9: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

Nemendur lesa síðan textana sem þeir sömdu (á markmálinu) upp fyrir bekkinn og kennarann. Textarnir eru síðan ræddir á markmálinu. Hvaða leiðir fóru nemendur ? Fóru allir sömu leið ? Ef ekki, hvaða leið völdu nemendur og af hverju ? Ekki er verið að fara ofan í málfræðiatriði (e. accuracy) í þessu verkefni heldur er áhersla lögð á munnlega tjáningu nemenda, flæði (e. fluency) markmálsins hjá þeim.

Með þessu móti fá nemendur fyrst æfingu í ritun sem er mikilvægt að þeir æfist í þegar þeir læra tungumál. Ritun er mikilvæg en ekki bara í gegnum málfræðiæfingar, kenna þarf nemendum „... að líta á ritun sem samskipti og textann sem merkingarbæra heild sem hefur einhvern tilgang annan en þann að vera æfing í tungumálinu“. (Auður Torfadóttir, 2007: 4). En aðal áhersla í verkefninu er á munnlega tjáningu á markmálinu.

Nemendur eru nú búnir að vinna með ljóðið beint. Þeir hafa hlustað á það sungið, lesið ljóðið, skoðað orðaforða þess, rætt efni þess, rifjað upp nokkur málfræðiatriði sem kennari benti þeim á sem komu fyrir í ljóðinu, svarað munnlega fullyrðingaspurningum upp úr efni ljóðsins og unnið þemaverkefni tengdu ljóðinu.

Þá kynnir kennari aðalverkefni vikunnar sem nemendur vinna í næsta tíma. Þeir eiga að fara í vefleiðangra (e. Webquest) og kynna sér 4 ákveðin efni.

Fyrst skiptir kennari bekknum í 4 hópa, hóp A, hóp B, hóp C og hóp D. 4 nemendur eru í hverjum hópi. Hver nemandi hefur 2 hlutverkum að gegna í sínum hópi. Fyrra hlutverk nemenda: Nemandi 1 í hverjum hópi er hópstjóri og heldur utan um að allir sinni sínu starfi á meðan verkefninu stendur og skiptir niður verkum þannig að allir komi að því að vinna og flytja verkefnið, nemandi 2 í hverjum hópi heldur utan um það efni sem hópurinn aflar í sameiningu, gætir að heimilda sé getið o.s.frv.,

9

Page 10: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

nemandi 3 er ritari, skráir efni inn og stjórnar uppsetningu þess í lokin og nemandi 4 er dagskrárstjóri, skipuleggur kynningu í síðasta tíma vikunnar með dagskrárstjórum hinna hópanna þannig að kynningarnar séu nákvæmlega tímasettar o.þh.

Seinna hlutverk: Alir þátttakendur hafa líka það hlutverk að fara hver í sínu lagi í vefleiðangurinn í sinni tölvu, og afla þar upplýsinga skv. þeim leiðbeiningum sem þeir fá í leiðangrinum, þ.e. uppgefnar slóðir o.fl. Hópurinn velur síðan saman það efni sem honum finnst henta í verkefnið.

Efnin 4 sem nemendur eiga að kynna sér eru eftirfarandi:

Hópur A kynnir sér ævi- og söngferil Édith Piaf.Hópur B kynnir sér 3 af þekktustu lögum Édith Piaf, þ.e. La vie en Rose, Milord og L´Hymne à l´amour.Hópur C kynnir sér aðra söngkonu , hina ítölsku Carla Bruni (sem sungið hefur fjölda laga á frönsku og er nú gift forseta Frakklands) og kynnir hana fyrir samnemendum sínum.Hópur D kynnir sér eitt þekktasta ljóðskáld Frakka á 20. öld, Jacques Prévert og kynnir hann og 1 ljóð hans fyrir samnemendum sínum.

Vinna á verkefnin í næsta tíma og verkefnin verða síðan flutt í 3 tímanum, lokatíma vikunnar.

Varðandi kynningu á verkefnunum þá gerir kennari þá kröfu að flutningur verkefnisins sé munnlegur, á markmálinu og að allir þátttakendur hópsins tjái sig, á markmálinu auðvitað (þar sem verkefnin verða mest megnis metin eftir munnlegum flutningi) en nemendum er frjálst að nýta sér þær aðferðir sem þeim henta við umgjörð og uppsetningu kynningarinnar, s.s. power point kynningu, glærur, myndir, veggspjöld, teikningar eða annað sem þeim dettur í hug. Þarna er kennari að reyna að fara með námið í átt til einstaklingsmiðaðs náms þar sem nemendur fá nokkuð frjálsar hendur við framsetningu kynninga.

10

Page 11: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

Kennari er búinn fyrir tímann að setja upp 4 vefleiðangra inn á Námsneti skólans, þar sem nemendur fá uppgefnar ákveðnar netslóðir til að afla þeirra upplýsinga sem þeir leita vegna verkefnanna. Ef þeir finna aðrar síður á Internetinu við vinnslu á verkefninu sem þeir telja sig geta fengið góðar upplýsingar á, þá metur kennari með nemendum í hverju tilfelli hvort heimildir á þeim síðum séu nothæfar, bæði í sambandi við verkefnið og eins að þær séu viðurkenndar heimildir.

Nemendur geta skoðað fyrir næsta tíma þessa vefleiðangra sem eru inni á Námsneti skólans og hvetur kennari þá til þess, það geri þeim vinnuna í næsta tíma auðveldari.

NÁMSMAT.

Kennslustundinni er skipt niður í 7 liði, sá 8. er unninn í næsta tíma.Í liðum 1. – 6. metur kennari aðallega þátttöku og virkni nemenda, eru þeir að fylgjast með, svara þeir spurningum greiðlega, nota þeir markmálið, spyrja þeir út í efnið o.þh.Í lið 7 metur kennari þemaverkefni nemenda út frá flæði (e. fluency) hve vel þeim gengur að tjá sig munnlega, koma þeir efninu frá sér svo það skilst, en horfir að langmestu framhjá málvillum í flutningi. Síðan metur kennari setningar þær sem nemendur setja saman í þemaverkefninu málfræðilega, hvort textinn sé málfræðilega réttur, orðaröð rétt og efnislega eðlilegur. Nemendur fá síðan texta sína til baka frá kennara í næsta tíma, með ábendingum um það sem betur megi fara.En, í þessum tíma er aðal áhersla er á tjáningarþættinum, að nemendur tjái sig sem mest á markmálinu, auki færni sína í að tjá sig munnlega. Tungumálið er jú tæki til tjáskipta og markmiðið með tungumálanámi er að nemendur geti notað þekkingu sína í markmálinu til tjáskipta og hafi gagn af þekkingu sinni. Í lið 8 verður það munnlegur flutningur kynninganna sem kennari horfir á, að nemendur geti á markmálinu kynnt nokkuð skilmerkilega efni sem þeir hafa verið að skoða og velja, þar er áfram flæðið (e. fluency) aðalatriðið en minna horft í málfræðivillur nemenda. Einnig metur kennari hvaða vinnu nemendur leggja í framsetningu kynningar, og leggur síðan mat á hvort allir í hverjum hópi hafa verið virkir í verkefninu. Loks metur kennari hvort nemendur hafi fylgt

11

Page 12: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

leiðbeiningum vefleiðangursins, þ.e. farið inn á þær síður sem fyrir var lagt í heimildaöflun.

12

Page 13: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

HEIMILDASKRÁ .

Aðalnámskrá, erlend tungumál, (1999). Reykjavík, Menntamálaráðuneytið, sótt á slóðina http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/aferlendtungumal.pdf þann 8. mars. 2009

Armstrong, T.(2001). Fjölgreindir í skólastofunni. Reykjavík: JPV útgáfa.

Auður Hauksdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir (ritstj.) (2007). Mál málanna.Um nám og kennslu erlendra tungumála. Reykjavík: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfan.

Auður Torfadóttir (2007) „Er ritun vanræktur þáttur í tungumálakennslu?Könnun á ritfærni nemenda í ensku við lok grunnskóla “ Málfríður 23 (2) 4-9 http://malfridur.ismennt.is/haust2007/pdf/vol-23-2_04-09-at.pdf

Brown, H.D. (2001). Teaching by Principles. An interactive approach to language pedagogy. New York; Longman..

Collie, J. & Slater, S. (1987). Literature in the Language Classroom. Cambridge: Cambridge University Press.

Hafdís Ingvarsdóttir. (2004). Ef það er eitthvað sem þeim þykir áhugavert. Enskukennsla við upphaf 21. aldar. Í Úlfar Hauksson (ritstj.) Rannsóknir í Félagsvísindum V. (471-482). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan

Ingvar Sigurgeirsson (1999)(a). Að mörgu er að hyggja. Handbók um undirbúning kennslu. Reykjavík: Bókaútgáfan Æskan.

Ingvar Sigurgeirsson (1999)(b). Litróf kennsluaðferðanna. Handbók fyrir kennara og kennaraefni. Reykjavík: Bókaútgáfan Æskan.

Lazar, Gillian(1993). Literature and Language Teaching. Cambridge, Cambridge University Press

13

Page 14: notendur.hi.is · Web viewNEMENDAHÓPUR OG TEXTAVAL. Franska er kennd nemendum allt niður í 10. bekk grunnskóla, en í nokkrum grunnskólum er boðið upp á frönsku í vali í

Viðauki 1: Ljóðið Non, je ne regrette rien.

Viðauki 2 : kennsluáætlun fyrir 90 mín. kennslustund.

Viðauki 3:.Kennsluáætlun fyrir kennslustund í æfingakennslu þ. 06.03.2009.

Viðauki 4: Power point kynning vegna kennslustundar 06.03.2009.

Viðauki 5: Spjald með orðum, uppröðuðum af 2 nemendum, þann 06.03.2009.

Viðauki 6: Ígrundun eftir bókmenntafræðiverkefni með stuttum samanburði á kennsluáætlun fyrir málfræðiverkefni 02.12.2008 og kennsluáætlun fyrir æfingakennslu þ. 06.03.2009

Viðauki 7: Kennsluáætlun fyrir málfræðiverkefni 02.12.2008

14